Lífið

Ný fylgihlutalína úr við

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Jón Helgi Hólmgeirsson vöruhönnuður hannaði nýjustu fylgihlutalínu Hring eftir hring.
Jón Helgi Hólmgeirsson vöruhönnuður hannaði nýjustu fylgihlutalínu Hring eftir hring. Mynd/Björg Vigfúsdóttir
Þetta er alveg nýtt fyrir mér og mjög skemmtileg áskorun. Ég gekk aldrei með fylgihluti sjálfur, ekki einu sinni með bindi, nema þá eins einfalt og ég fann,“ segir Jón Helgi Hólmgeirsson vöruhönnuður, en hann er höfundurinn á bak við Hryggur Collection, sem er ný fylgihlutalína frá Hring eftir hring. Línan verður kynnt í dag á vinnustofu Hring eftir hring í Skipholti 33 milli klukkan 17 og 19.

„Þetta verður forsýning þar sem línan er ekki komin í verslanir enn,“ segir Jón. 

Hryggur Collection samanstendur af fjórum vörum; hálsbindum í þremur lengdum, það er; einni lengd fyrir karla, annarri fyrir konur, þriðju lengdinni sem ætluð er fyrir bæði kyn og armbandi með sama sniði.

„Ég lagði upp með að hanna eitthvað sem myndi passa inn í vörulínu Hring eftir Hring, sem samanstendur oft af skartgripum úr mörgum pörtum sem samsettir mynda stærri grip. Ég vildi reyna nýja nálgun á bindið og tengja saman hreyfinguna í hryggnum og þá hreyfingu sem bindið þarf að búa yfir. Hring eftir hring selur einnig Mugga-slaufurnar sem eru úr tré og ég ákvað því að gera hryggjarliði úr krossviði sem samtengdir mynda hálsbindi annars vegar og armband hins vegar,“ útskýrir Jón og viðurkennir að línan skeri sig úr.

„Þetta er svolítið öðruvísi og það verður gaman að sjá viðtökurnar,“ segir hann sposkur en vill þó ekki meina að Hryggur Collection sé bara fyrir harða hipstera. „Nei, nei, þetta getur fallið í kramið hjá hverjum sem er. Ég veit ekki hvort ég telst sjálfur harður hipster en ég er farinn að ganga með þetta og líkar vel. Það veit á gott.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.