Sveitarstjórn Mýrdalshrepps harmar ákvörðun Vegagerðarinnar um að taka veg sem liggur inn í Heiðardal og að Heiðarvatni af vegaskrá.
„Þetta er svæði sem fólk fer mikið um,“ segir Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps.
Heiðarvatn er stærsta veiðivatn í Mýrdalshreppi, þar er góð silungsveiði og úr því rennur laxveiðiperlan Vatnsá. Ásgeir segir að síðustu ábúendurnir í dalnum, á Litlu-Heiði, hafi flutt lögheimili sitt niður í Vík í fyrrahaust. Þar með uppfylli vegurinn ekki skilyrði til að teljast héraðsvegur sem lagður er að heimilum manna.
„En síðan eru tengivegir Vegagerðarinnar sem liggja að stöðum sem teljast merkilegir. Þetta er til dæmis vegurinn út í Dyrhólaey og að Sólheimajökli. Þannig viljum við fá Vegagerðina til að skilgreina veginn inn í Heiðardal,“ segir Ásgeir sem kveður umræddan veg vera um þriggja kílómetra langan.
Heiðardalur er í eigu Svisslendingsins Rudolphs Lamprecht.
Mýrdælingar vilja halda vegi á skrá
Garðar Örn Úlfarsson skrifar
