Lífið

Ekki reyna að vera eins og allir aðrir

Marín Manda skrifar
Sissa Ólafsdóttir.
Sissa Ólafsdóttir.
Sissa Ólafsdóttir, ljósmyndari og skólastýra Ljósmyndaskólans, er í sínu draumastarfi. Sem barn var hún þó harðákveðin í að verða nunna en fór aðra leið og lærði þroskaþjálfann. Nokkrum árum síðar fann hún sterka þörf til að skapa og ákvað þá loks að slá til og læra ljósmyndun.

Hver voru þín fyrstu skref í ljósmyndun?

„Ég byrjaði að vinna fyrir Ingólfskaffi, módelsamtök og tímarit. Þá hélt ég að mig langaði til að verða tískuljósmyndari. Fljótlega byrjaði ég þó að mynda það sem mér fannst áhugaverðast á þeim tíma, þ.e.a.s taka barna-, fjölskyldu- og brúðarmyndir. Ég féll kylliflöt fyrir verkum ljósmyndarans Sally Mann þegar ég var í námi. Það voru einhverjir töfrar í myndunum hennar sem ég vildi ná fram í mínum myndum, á minn hátt.“

Hvað er skemmtilegast við starfið?

„Það er svo margbreytilegt, engir tveir dagar eru eins og það eru margar mismunandi leiðir til að taka góða ljósmynd. Eins hef ég í gegnum starfið kynnst mörgum af mínum bestu vinum og fengið að upplifa yndislegar stundir. Ljósmyndun er líka alltaf að breytast, sem er spennandi. Þegar ég byrjaði í ljósmyndun var allt myndað á filmu. Þegar stafrænar myndavélar komu til sögunnar opnaðist nýr heimur sem gerði manni skyndilega kleift að gera svo miklu meira við ljósmyndina.“

Hvað gerir þú í frítíma þínum?

„Ljósmyndun er ekki bara vinnan mín heldur líka mitt helsta áhugamál. Þegar ég er í fríi hugsa ég um ljósmyndun og leita að innblæstri. Ég ferðast, fer mikið á sýningar, horfi á bíómyndir og vinn að eigin verkefnum. Ég var einmitt að byrja á nýju verkefni þar sem ég vinn með nýtt, spennandi þema og þá fer allur minn frítími í að vinna að því.“

Einhver góð ráð fyrir þá sem hafa áhuga á ljósmyndun?

„Besta ráð mitt til þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref er að mynda og mynda og mynda. Einnig að læra á myndavélina þannig að þú vitir hvað hún getur gert fyrir þig. Skoða svo myndirnar gagnrýnum augum og sjá hvað þú getur gert betur. Ég trúi því einnig að þú verðir miklu betri ljósmyndari ef þú myndar það sem þú hefur áhuga á. Ekki reyna að vera eins og allir aðrir, það er til fullt af góðum ljósmyndurum, en fáir sem eru einstakir.“

dagný
.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.