Lífið

Þetta er rosalegur heiður

Marín Manda skrifar
Vigdís Finnbogadóttir afhenti Hjalta verðlaunin við hátíðlega athöfn í Gautaborg.
Vigdís Finnbogadóttir afhenti Hjalta verðlaunin við hátíðlega athöfn í Gautaborg.
Grafíski hönnuðurinn Hjalti Karlsson tók í byrjun mánaðar á móti hinum virtu Torsten og Wanja Söderberg verðlaunum.

Markmið verðlaunanna sem hafa verið veitt árlega síðan 1994, er að styðja stoðum við hönnun, handiðn og tísku á Norðurlöndunum.

Fyrrverandi forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, afhendi verðlaunin við hátíðlega athöfn í Gautaborg.




„Ég er búin að kaupa mér ný jakkaföt. Það var númer eitt tvö og þrjú,“ segir Hjalti Karlsson hlæjandi þegar hann er spurður út í nítján milljóna króna verðlaunaféð sem honum hlotnaðist.

„Það er of snemmt að segja hvað þetta þýðir fyrir mig en þetta er rosalegur heiður og ég er nánast orðlaus,“ segir Hjalti sem var staddur á Íslandi í stuttri heimsókn þegar blaðamaður náði tali af honum.

Gluggi sýningarinnar í Gautaborg.
Hjalti Karlsson er grafískur hönnuður sem hefur búið í New York í Bandaríkjunum undanfarin tuttugu ár og rekur hönnunarfyrirtækið KarlssonWilker ásamt Jan Wilker meðeigenda sínum.

Í kjölfar verðlaunaafhendingarinnar settu þeir félagar upp sýninguna, This is how I do it á Röhsska-safninu í Gautaborg. 

Af sýningunni á Röhsska-safninu.
„Við erum búnir að vinna að þessari sýningu í rúmlega þrjá mánuði en þetta er risastór salur. Ég ákvað að skipta salnum í tvennt og búa til tímalínu af minni vinnu síðastliðin tuttugu ár öðrum megin en hinn helmingur sýningarinnar eru 7 stórar myndir sem hafa allar með Svíþjóð að gera.“

Verkefnin hafa verið margvísleg í gegnum árin og hefur hönnunarteymið KarlssonWilker meðal annars starfað fyrir Puma, MTV í USA og Time Magazine.

Sýningin stendur til 2. febrúar.
„Við hönnuðum eitt sinn tólf blaðsíður fyrir Time Magazine og ákváðum að tróða lítilli mynd af okkur á forsíðuna sem við héldum að þeir myndu gera athugasemd við, en þeir gerðu það ekki,“ útskýrir Hjalti. 

Aðspurður um tengslin til Íslands segist hann koma reglulega til landsins og hefur meðal annars verið að vinna með hljómsveitinni Gus Gus á Íslandi.

Hjalti Karlsson - A Short Documentary 2013 from Torsten & Wanja Söderbergs pris on Vimeo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.