Lífið

Ræktar drottningar

Ugla Egilsdóttir skrifar
Margrét Ísólfsdóttir, Þórður Freyr Sigurðsson og Þórdís Ósk Þórðardóttir stunda fjölskyldusportið.
Margrét Ísólfsdóttir, Þórður Freyr Sigurðsson og Þórdís Ósk Þórðardóttir stunda fjölskyldusportið. Mynd/Erla Berglind Sigurðardóttir
Margrét Ísólfsdóttir er býflugnabóndi á Hvolsvelli. Hún sinnir býflugunum yfir sumartímann í einn til tvo klukkutíma á viku.

Býflugur hafa verið ræktaðar á Íslandi í nokkur ár með nokkrum árangri. Um það verður fjallað í fyrirlestri Ástríðar Pálsdóttur í Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum í dag klukkan 12.20 til 13.00. Blaðamanni Fréttablaðsins lék forvitni á að vita hvernig þessi ræktun gengur fyrir sig og talaði við nýbakaða býflugnabóndann Margréti Ísólfsdóttur. Hún hóf býflugnarækt í sumar ásamt manni sínum eftir að þau fluttu á Hvolsvöll. Til þess að búa sig undir ræktunina sóttu þau yfirgripsmikið námskeið hjá Býflugnafélagi Íslands.

„Á námskeiðinu lærir maður hvernig á að rækta býflugur og umgangast þær, halda búunum á lífi og rækta drottningar.“

Býflugnafélag Íslands sér um innflutning á býflugum frá Álandseyjum. Það er eina landið sem er laust við mítil sem er padda sem lifir á býflugum. Fyrir nokkrum árum varð hrun í býflugnastofninum á heimsvísu, sem hefur mikil áhrif á matvælaframleiðslu, því að býflugur sjá um að frjóvga akra. „Það eru uppi getgátur um að ástæðan hafi verið eiturefni sem var úðað á akrana. Þessi eiturefni eru ekki notuð við íslenska matvælaframleiðslu og þetta hrun hefur ekki komið til Íslands.“ Margrét bendir á að býflugnaræktun fari vel saman við aðra ræktun.

„Það getur aukið uppskeru um þrjátíu til fjörutíu prósent.“ Margrét nýtir sér þetta og ræktar epli, perur, kirsuber, plómur, jarðarber og ýmiss konar salöt meðfram býflugunum.

Umstangið í kringum býflugnaræktunina fer eftir því hversu mörg bú maður er með, að sögn Margrétar. „Við erum bara með eitt bú sem maður þarf að hugsa um í um það bil klukkutíma eða tvo á viku. Það þarf einungis að sinna þessu yfir sumartímann. Yfir veturinn leggjast býflugurnar í hálfgerðan dvala sem heitir klasi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.