Lífið

Brúður túlka efnahagshrunið

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Andrea Ösp Karlsdóttir leikkona og Þórður Gunnar Þorvaldsson tóna- og hljóðsmiður nýkomin úr ævintýraferð.
Andrea Ösp Karlsdóttir leikkona og Þórður Gunnar Þorvaldsson tóna- og hljóðsmiður nýkomin úr ævintýraferð. fréttablaðið/vilhelm
„Þetta var mjög gaman og mikið ævintýri að taka þátt í þessu,“ segir Andrea Ösp Karlsdóttir leikkona sem tók þátt í brúðusýningunni SAGA, sem lauk nýverið með Noregstúr. SAGA er brúðusýning unnin af leikhópnum Wakka Wakka Productions sem stofnaður var af Gwendolyn Warnock og Gabrielle Brechner frá Bandaríkjunum og Kirjan Waage frá Noregi en leikhópurinn var stofnaður árið 2001.

„SAGA er nútíma víkingasaga og fjallar um fjölskyldu sem lendir illa í því í efnahagshruninu á Íslandi 2008. Maður einn selur kvótann sinn og flytur út á land með fjölskyldunni til að opna gistihús og veitingastað, hann kaupir sér nýjan jeppa og tekur nokkur lán til að opna þetta frábæra gistiheimili. Í hruninu missa þau allt út úr höndunum og úr verður mikið ævintýri,“ útskýrir Andrea.

Ásamt henni tekur annar Íslendingur þátt í sýningunni, hljóð- og tónasmiðurinn Þórður Gunnar Þorvaldsson, en hann sér um alla hljóð- og tónlistarvinnu í sýningunni.

„Ég fór í prufur í New York, svo fór ég líka í prufu þegar þau komu til Íslands. Prufan var í júní í fyrra og byrjaði ég strax að vinna með þeim í heimildarvinna en við unnum sýninguna í New York og í leikhúsi í Noregi,“ segir Andrea.

Sýningin, sem fer fram á ensku, er mjög sjónræn og brúðunum er gefið mikið líf sem áhorfendur tengjast. Um er að ræða yfir þrjátíu brúður af öllum stærðum, en minnsta brúðan er um tíu sentímetrar á hæð og sú stærsta hátt í þrír metrar á hæð.

„Við frumsýndum í Noregi í desember í fyrra en þaðan fórum við til New York og sýndum sex sinnum á viku í sex vikur „off-broadway“ og fengum frábæra gagnrýni, meðal annars frá The New York Times, The Village Voice og fleiri virtum miðlum. Í lok ferlisins unnum við síðan sérstök Drama Desk-verðlaun fyrir sýninguna,“ bætir Andrea Ösp við.

SAGA verður sýnt á Íslandi í júní í Þjóðleikhúsinu í tilefni af Listahátíð í Reykjavík.

Mótmælin frægu koma fyrir í sýningunni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.