Lífið

Keyrðu mig heim-app væntanlegt

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Ómar Þröstur Hjaltason og Kristinn Sævar Magnússon, stofnendur þjónustunnar Keyrðu mig heim. Eftirspurnin hefur aukist og nýtt app er í smíðum.
Ómar Þröstur Hjaltason og Kristinn Sævar Magnússon, stofnendur þjónustunnar Keyrðu mig heim. Eftirspurnin hefur aukist og nýtt app er í smíðum. fréttablaðið/pjetur
„Appið verður fyrir bæði iPhone og Android en það verður tilbúið í janúar, þegar árshátíðatímabilið fer á flug,“ segir Ómar Þröstur Hjaltason, sem er eigandi þjónustunnar Keyrðu mig heim en nýtt app er væntanlegt frá fyrirtækinu.

Appið, sem verður frítt, kemur til með að auðvelda þjónustu fyrirtækisins enn frekar, en Optimus margmiðlun sér um að hanna appið. Þar verður hægt að panta, sjá hve mikill biðtími er og hvað þjónustan kostar, ásamt ýmsum öðrum hagnýtum upplýsingum.

Fyrirtækið Keyrðu mig heim var stofnað af Ómari Þresti og Kristni Sævari Magnússyni í októbermánuði í fyrra og hefur stækkað mikið síðustu mánuði. „Eftirspurnin hefur aukist mjög mikið undanfarna mánuði, sérstaklega eftir að við fórum að hafa opið á virkum dögum.

Fólk sem hefur fengið sér áfenga drykki á viðskiptafundum og mannamótum á virkum dögum nýtir þjónustuna svo dæmi séu tekin,“ útskýrir Ómar.

Hjá fyrirtækinu starfa fimm starfsmenn. „Allir þeir sem vinna hjá fyrirtækinu eru vanir ökumenn, allir með meirapróf og vinna við akstur af ýmsu tagi.“

Þjónustan virkar þannig að kúnninn hringir og hittir ökumann hjá bílnum sínum, sem ekur bílnum heim, en oftast fer eigandi bílsins einnig með og sparar sér þá aukinn leigubílakostnað.

Fyrirtækið hefur keyrt bíla af öllum stærðum og gerðum fyrir almenning.

„Við höfum keyrt allt frá 1983-árgerð af Benz sem kostar kannski fimmtíu þúsund krónur, fram til 2013-árgerð af Range Rover sem kostar líklega um tuttugu milljónir króna,“ bætir Ómar við að lokum.

Nánari upplýsingar má finna hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.