Innlent

Golfklúbbur vill styrki í 633 milljóna hús

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Klúbbhús GKG var áður söluskáli á Selfossi og dugir ekki lengur.
Klúbbhús GKG var áður söluskáli á Selfossi og dugir ekki lengur. Fréttablaðið/GVA
„Núverandi klúbbhús sem upphaflega var söluskáli á Selfossi er löngu sprungið,“ segir í bréfi Golklúbbs Kópavogs og Garðabæjar til sveitarfélaganna þar sem leita er eftir fjárstyrkjum til að hefja hönnum nýs klúbbhúss.

Ætlun GKG er að byggja 1.188 fermetra hús. Áætlaður kostnaður er 633 milljónir króna. Óskað er eftir því í byrjun að Kópavogur og Garðabær leggi fram fjórar milljónir hvort sveitarfélag til að hefja hönnun og undirbúning hússins. Félagið sjálft að leggja fram tvær milljónir. Þá er óskað eftir langtímasamningi um fjármögnun heildarverksins sem hefja eigi á næsta ári, á tutttugu ára afmæli klúbbsins.

Innandyra í húsi GKG er snyrtilegt á yfirborðinu en undir niðri leynist fúi og sveppir í signu gólfinu. Fréttablaðið/GVA
Fram kemur að GKG er annar stærsti golfklúbbur landsins með fjölmennara barna- og unglingastarf en önnur félög. Um eitt þúsund ungmenni stundi golfíþróttina með einum eða öðrum hætti hjá GKG.

Þá segir að völlurinn sé samkeppnishæfur en önnur aðstaða ekki. Gólfið í klúbbhúsinu í Leirdal sé sigið, það sé fúið og sveppir teknir að myndast. „Þannig að nú brennur á að taka ákvörðun,“ segir klúbburinn.

„Mikilvægt er að átta sig á því að klúbbhús er ekki bara veitingasala. Í klúbbhús þarf að vera búningsaðstaða, aðstaða fyrir barna- og unglingastarf, kennslu- og fyrirlestraraðstaða, geymsluaðstaða fyrir golfsett og síðast enn ekki síst, þá er klúbbhúsið starfsvettvangur þeirra sem vinna að málefnum klúbbsins," segir í bréfi GKG.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×