Innlent

Ábyrgð íslensku bankanna á bankahruni önnur en þeirra dönsku

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Jesper Rangvid segir breytilegan gjaldmiðil hjálpa Íslendingum út úr kreppunni.
Jesper Rangvid segir breytilegan gjaldmiðil hjálpa Íslendingum út úr kreppunni. Fréttablaðið / GVA
Jesper Rangvid, prófessor í fjármálum við Kaupmannahafnarháskóla, segir ábyrgð dönsku bankanna á kreppunni allt aðra en þeirra íslensku.

„Dönsku bankamennirnir ráku kannski bankana illa á tímabili en siðferðislega gerðu þeir ekki mikið rangt. Enginn dómur hefur fallið í Danmörku í tengslum við kreppuna en þau dómsmál sem verða rekin verða af allt öðrum meiði og ekki eins alvarleg og á Íslandi,“ segir Jesper.

Jesper er formaður nefndar sem rannsakaði orsök og afleiðingar fjármálakreppunnar í Danmörku og kynnti hann helstu niðurstöður nefndarinnar í Seðlabankanum í gær.

Hann segir að á meðan framþróun sé í efnahagsmálum á Íslandi sé efnahagskerfi Danmerkur nú að taka á sig skellinn.

„Atvinnuleysi eykst enn í Danmörku og afleiðingar hrunsins eru enn áberandi í samfélaginu. Íslendingar geta aftur á móti stjórnað gjaldmiðli sínum sem kemur sér vel fyrir til dæmis ferðaþjónustu og útflutning. En að sama skapi var það íslenska krónan sem olli því hversu djúpt krísan risti á Íslandi,“ segir Jesper.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×