Innlent

47 bíða eftir hjúkrunarrými á Landspítalanum á hverjum degi

Brjánn Jónasson skrifar
Aldraðir sjúklingar bíða að meðaltali í 50 daga á Landspítalanum eftir hjúkrunarrými.
Aldraðir sjúklingar bíða að meðaltali í 50 daga á Landspítalanum eftir hjúkrunarrými. Fréttablaðið/Vilhelm
Að meðaltali hafa 47 sjúklingar beðið á Landspítalanum á hverjum degi eftir að hjúkrunarrými losnaði á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Bjarkar Vilhelmsdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, á Alþingi.

Þar segir ennfremur að sjúklingar bíði að meðaltali 50 daga eftir hjúkrunarrými.

Alls voru 124 aldraðir á biðlista eftir hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu í lok september. Að meðaltali biðu 100 eftir rými á síðasta ári. Biðlistinn hefur því lengst um 20 prósent á einu ári.

Til viðbótar við hjúkrunarrými sem tekin hafa verið í notkun í ár er gert ráð fyrir því að rýmum fjölgi um 76 á árinu 2015. Nákvæm tímasetning liggur ekki fyrir.

Miðað við mannfjöldaspá og áætlaða fjölgun hjúkrunarrýma er búist við að biðlistinn styttist í 78 á árinu 2015 en lengist síðan í 270 árið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×