Innlent

Þetta er ekki gullnáma fyrir íbúðareigendur

Ugla Egilsdóttir skrifar
Hildur Björgvins- dóttir
Hildur Björgvins- dóttir
Hildur Björgvinsdóttir leigir út íbúð til erlendra ferðamanna allt árið um kring. Hún segir að það borgi sig örugglega að leigja út íbúðir til erlendra ferðamanna ef það er gert allt árið um kring. Hins vegar mælir hún ekki með því að fólk leigi út íbúðirnar aðeins yfir Airwaves-hátíðina eins og sumir gera.

„Það er dýrt að fá leyfi fyrir því. Það myndi ekki endilega borga sig að gera þetta bara yfir Airwaves.“

Sækja þarf hjá sýslumanni um rekstrarleyfi til þess að leigja út íbúðir. Embætti lögreglustjóra sér um að veita leyfið í Reykjavík. Leyfið er veitt til fjögurra ára í senn og kostar 24.000 krónur. Til þess að fá leyfi þarf að uppfylla alls kyns skilyrði.

„Það getur verið kostnaðarsamt. Til dæmis er nauðsynlegt að eiga slökkvitæki til að fá leyfi. Við þurftum að skipta um blöndunartæki vegna þess að þau voru ekki af réttri tegund.“

Leigutekjur eru skattskyldar eins og aðrar tekjur. Ef meiningin er að leigja íbúðina út aðeins í fjóra eða fimm daga borgar það sig ekki endilega. Það er að segja ef sótt er um leyfi og tekjurnar gefnar upp til skatts.

Ef íbúðir eru leigðar út í lengri tíma fer framtakið þó fljótlega að svara kostnaði. Hildur segir að það fáist meiri tekjur út úr því að leigja út íbúð til ferðamanna en með því að setja íbúðina í langtímaleigu en að þeim mun meiri vinna sé fólgin í því.

„Það þarf að halda utan um bókanir, gefa fólki ráðleggingar um hvað sé áhugavert að gera í Reykjavík, svara tölvupósti og auðvitað þrífa og þvo. Þetta er brjáluð vinna.“

Hildur segist ekki hafa hækkað leiguverðið í kringum Airwaves.

„Ég leiddi ekki hugann að því að því einu sinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×