Innlent

Forsíðufrétt olli Steingrími áhyggjum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
"Ég skoraðist hvergi undan því að ræða erfið mál þegar skrásetjari vildi að við tækjum þau fyrir,“ segir Steingrímur J. Sigfússon.
"Ég skoraðist hvergi undan því að ræða erfið mál þegar skrásetjari vildi að við tækjum þau fyrir,“ segir Steingrímur J. Sigfússon. Fréttablaðið/Stefán
„Þegar ég sá blaðið þennan morgun hafði ég strax áhyggjur og reyndi að hringja í Ögmund.“ Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, í bók sinni „Steingrímur J – Frá hruni og heim“ um viðbrögð sín við forsíðu Fréttablaðsins þann 30. september 2009.

Ögmundur Jónasson, sem þá var heilbrigðisráðherra, sagði af sér ráðherraembætti þann sama dag.

Í forsíðufréttinni kom fram það mat Jóhönnu Sigurðardóttur að stjórnarsamstarfinu væri sjálfhætt næðist ekki samstaða um Icesave á næstu dögum. „Yfirlýsingar forsætisráðherra fara ekki fram hjá mér,“ var haft eftir Ögmundi Jónassyni heilbrigðisráðherra í sömu frétt.

Fréttablaðið 30. september 2009.
Um leið og Steingrímur sá fréttina á forsíðu Fréttablaðsins reyndi hann að hringja í Ögmund. Aldrei þessu vant hafi hann ekki tekið síma en upp úr tíu hafi hann fengið skilaboð um að Ögmundur væri á leiðinni niður í ráðuneyti til að hitta hann. Steingrímur segir að Ögmundi hafi ekki verið haggað.

„Ég skil ekki enn hvers vegna hann sagði af sér,“ segir Steingrímur í bókinni sem Björn Þór Sigbjörnsson skrásetti. Greint er frá því að Steingrímur hafi hringt í Jóhönnu og sagt henni hvað hún ætti í vændum. Að sögn Steingríms kom á Jóhönnu. Hann bað hana um að fallast ekki á afsagnarbeiðnina sem hún hefði því miður gert. Hún hefði sagt Steingrími eftir á að hún hefði ekki náð neinni rökræðu við Ögmund. Hann hefði auk þess verið búinn að boða blaðamenn til fundar við sig og þeir beðið eftir honum úti á tröppum. Þar hefði hann tilkynnt um afsögn sína.

Spurður um tilefni bókarskrifanna segir Steingrímur að hann hafi fengið fjölda fyrirspurna og áskoranir um að segja frá baráttunni við að reyna að koma í veg fyrir að Ísland færi á hausinn. Hann hafi meðal annars verið beðinn um að halda fyrirlestra, einkum erlendis, um glímuna við endurreisn Íslands. „Ég ákvað að slá til þar sem maður var þar sem eldarnir brunnu sem heitast á þessum árum. Sumt lifir með okkur næstu árin og það ýtti frekar á að gera þetta fyrr en seinna.“

Steingrímur kveðst hafa viljað draga upp stóru myndina, eins og hann orðar það. „Ég skoraðist hvergi undan því að ræða erfið mál þegar skrásetjari vildi að við tækjum þau fyrir.“ Hann segist í þeim tilfellum hvorki hafa hlíft sjálfum sér né öðrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×