Lífið

Nýtt íslenskt súkkulaði

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Félagarnir flytja sjálfir inn kakóbaunir, meðal annars frá Venesúela og Madagaskar.
Félagarnir flytja sjálfir inn kakóbaunir, meðal annars frá Venesúela og Madagaskar. mynd/omnom
Omnom er glænýtt íslenskt súkkulaði sem kom á markaðinn um helgina. Á bak við það standa fjórir forfallnir súkkulaðigrísir sem segja súkkulaðigerð eiga margt sameiginlegt með víngerð.

Þetta spratt upp úr forvitni. Maður hafði ekki hugmynd um hvernig súkkulaði er búið til. Við vorum að ræða þetta við Óskar Þórðarson, æskufélagi minn, fyrir rúmu ári síðan og hægt og rólega fjárfestum við í vélum og kakóbaunum. Svo tóku við tilraunir í eldhúsinu heima,“ segir Kjartan Gíslason, matreiðslumaður og einn framleiðenda súkkulaðisins Omnom.

Fljótlega slógust Karl Viggó Viggósson, bakari og konditorimeistari og André Úlfur Visage hönnuður í hópinn og úr urðu fimm tegundir af súkkulaði sem komu á markaðinn nú um helgina. Kakóbaunirnar flytja þeir félagarnir sérstaklega inn og líkja súkkulaðigerðinni við víngerð.

„Baunirnar okkar koma frá Venesúela, Papúa Nýju-Gíneu, Ekvador og Madagaskar og við höfum prófað okkur áfram með mismunandi ristunartíma, sykurbrennslu og þar fram eftir götunum. Smáatriðin skipta máli og það má í raun líkja súkkulaðigerð við víngerð. Vín bragðast mismunandi eftir héruðum og árstíðum og það sama á við um kakóbaunina. Það skiptir líka máli hvernig baunin er þurrkuð og gerjuð áður en hún kemur í hendurnar á framleiðandanum,“ útskýrir Kjartan, sem augljóslega hefur gaman af vinnunni.

„Það er aldrei leiðinlegur dagur í þessu.“



Um helgina komu fimm tegundir á markaðinn frá Omnom, tvær tegundir af dökku súkkulaði, tvær af mjólkursúkkulaði og hvítt súkkulaði, sem Kjartan segir einstakt á Íslandi.

„Það er ekki framleitt annað hvítt súkkulaði á landinu. Við köllum það Dirty Blonde og notum í það lífrænt kakósmjör sem ilmar enn þá af kakóbauninni og gefur því mikla fyllingu í súkkulaðið. Við munum selja til að byrja með hjá vinum okkar hjá Reykjavík Roasters á Kárastíg en stefnum á að opna vefverslun fyrir jólin,“ segir Kjartan.

Hægt er að fylgjast með Omnom á Facebook.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.