Innlent

Taka harðar á vændiskaupum

Valur Grettisson skrifar
Þórunn Þórarinsdóttir Forstöðukona Kristínarhúss segir lögreglu taka á vændiskaupendum af meiri festu.
Þórunn Þórarinsdóttir Forstöðukona Kristínarhúss segir lögreglu taka á vændiskaupendum af meiri festu.
„Það sem virðist vera að breytast er að löggjafinn er að taka á vændismálum af meiri festu,“ segir Þórunn Þórarinsdóttir, ný forstöðukona Kristínarhúss, sem er athvarf fyrir konur sem hafa lent í vændi eða mansali.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að búið væri að ákæra tíu karlmenn fyrir að greiða konum fyrir vændi, sem er ólöglegt hér á landi. Fyrstu málin voru þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í gær.

Alls voru 86 mál send ákæruvaldinu og voru mennirnir grunaðir um að hafa keypt vændi af tveimur konum á suðurnesjum.

Þórunn segist ekki hafa fundið fyrir skyndilegri aukningu á vændi hér á landi heldur því að lögreglan sé farin að taka á málaflokknum af alvöru.

Spurð hvort það komi hennar á óvart að hátt í hundrað manns séu grunaðir eða ákærðir fyrir vændi, svarar Þórunn: „Þessi fjöldi kemur mér í sjálfu sér ekki á óvart. Svona er raunveruleikinn, og hefur verið lengi,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×