Innlent

ESB bannar paraben í snyrtivörum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Þeir sem ekki vilja hafa varasöm efni í snyrtuvörunum sínum þurfa að skoða vel innihaldslýsingar við kaup á þeim.
Þeir sem ekki vilja hafa varasöm efni í snyrtuvörunum sínum þurfa að skoða vel innihaldslýsingar við kaup á þeim.
Evrópusambandið, ESB, hyggst banna fimm stærstu sameindir parabenefna, þ.e. rotvarnarefna, í snyrtivörum. Framleiðendur hafa ekki afhent Evrópusambandinu gögn sem sýna fram á að þessar tegundir séu öruggar til notkunar og þar sem þær geta mögulega raskað hormónastarfsemi verða þær bannaðar.

Evrópsk reglugerð um snyrtivörur tók gildi hér á landi í júlí síðastliðnum. Banninu mun þess vegna verða fylgt eftir hér á landi þegar reglugerðin verður uppfærð.

Í fréttatilkynningu til danskra fjölmiðla fagnar umhverfisráðherra Danmerkur, Ida Auken, banninu. Hún segir það góð tíðindi að þessi efni verði bönnuð þannig að ekki verði lengur hægt að nota þau við framleiðslu snyrtivara eins og krems, sjampós og farða. Umhverfisráðherrann lýsir yfir sérstakri ánægju með að bannið eigi að ná til allra tegunda snyrtivara þannig að það verndi allan almenning og þá ekki síst börn og barnshafandi konur.

Bergþóra Skúladóttir
Bergþóra Skúladóttir, teymisstjóri efnateymis Umhverfisstofnunar, segir Dani hafa beitt sér mjög í þessum málum. Þeir hafi sjálfir sett bann við ákveðnum parabenum fyrir tveimur árum. „Þessi ákvörðun ESB er góðar fréttir. Þegar bannið tekur gildi hjá ESB mun það gilda á Íslandi líka.“

Á vef Umhverfisstofnunar segir að paraben séu flokkur efna sem séu m.a. notuð sem rotvarnarefni í snyrti- og hreinsivörum fyrir bæði börn og fullorðna.

Um er að ræða að minnsta kosti sex mismunandi sameindir sem eru misstórar og bera nöfnin metýl-, etýl-, própýl-, bútýl-, ísóprópýl- og ísóbútýlparaben. Rannsóknir á dýrum hafa sýnt að paraben raska hormónastarfsemi, og að áhrifin aukast með stærð sameindarinnar. Í dag er leyfilegur heildarstyrkur parabena í snyrtivörum háður takmörkunum. Svansvottaðar snyrtivörur innihalda ekki paraben.

Árið 2011 voru própýl-, bútýl-, ísóprópýl- og ísóbútýlparaben og sölt þeirra bönnuð í Danmörku í vörum fyrir börn, þriggja ára og yngri.

Evrópusambandið hefur nú ákveðið að banna stærstu sameindir parabena, það er ísópropýlparaben, ísóbútýlparaben, penýlparaben, benzýlparaben og pentýlparaben, í snyrtivörum.

Fjórða hvert tilfelli snyrtivöruofnæmis er af völdum svitalyktareyðis. Þetta eru niðurstöður rannsókna vísindamanna við Gentofte Hospital í Danmörku. Á vef danska ríkisútvarpsins er haft eftir prófessornum Jeanne Duus Johansen að efni í svitalyktareyði komist auðveldlega inn í líkamann, sérstaklega ef sár myndast við rakstur.

Konur eiga frekar á hættu að fá ofnæmi af svitalyktareyði þar sem það eru einkum þær sem raka sig undir höndunum. Einkennin geta verði útbrot, roði, bólga, kláði og lítil sár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×