Innlent

Vina-Vopnafjörður í eina viku

Elimar Hauksson skrifar
Krakkarnir á Vopnafirði tóku daginn snemma í gær og dreifðu hjörtum í hús með vinalegum skilaboðum.
Krakkarnir á Vopnafirði tóku daginn snemma í gær og dreifðu hjörtum í hús með vinalegum skilaboðum.
Unglingar í æskulýðsfélgi kirkjunnar á Vopnafirði standa nú fyrir Vinaviku á Vopnafirði í fjórða skipti. Stefán Már Gunnlaugsson, sóknarprestur Hofsprestkalls segir börnin sjálf hafa átt hugmyndina að vikunni.

„Með vinavikunni sýna unglingarnir í verki hvernig hægt er að hafa áhrif á umhverfið með því að gleðja og vekja jákvæð viðhorf. Tilgangurinn er að minna á hin sönnu verðmæti; vináttuna og kærleikann,“ segir Stefán.

Samningur var gerður við bæjarstjórn um að bærinn heiti Vina-Vopnafjörður á meðan á vikunni stendur en fjöldi viðburða eru á dagskrá. Dagskránni lýkur með kærleiksmaraþoni á sunnudaginn en þá ganga 30 unglingar í hús og bjóða fram aðstoð sína við létt heimilisverk auk þess sem boðið verður upp á kaffi og veitingar í safnaðarheimilinu. Þá verður andlitsmálun fyrir börn, Vinabingó og bílaþvottur fyrir gesti og gangandi þeim að kostnaðarlausu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×