Innlent

Margfalda bandbreiddina frá því sem nú er

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Ómar Benediktsson, forstjóri Farice, og Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, ganga frá samningi.
Ómar Benediktsson, forstjóri Farice, og Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, ganga frá samningi. Mynd/Síminn
Síminn hefur samið við Farice um að tryggja netsamband Símans við umheiminn til ársloka 2019. Síminn fær með samningnum margfalda bandbreidd úr landi á við það sem nú er, að sögn Sævars Freys Þráinssonar, forstjóra Símans.

Hann segir að samningurinn tryggi bandbreidd um þrjá sæstrengi, Farice-1 og Danice-strengina til Evrópu, auk Greenland Connect-strengsins til Norður-Ameríku.

„Síminn hefur átt í farsælu viðskiptasambandi við Farice um árabil og með þessum samningi styrkjum við enn frekar samband okkar við umheiminn,“ er eftir honum haft í tilkynningu Símans.

Með samningnum nái Síminn markmiðum sínum um gæði og öryggi gagnatenginga við útlönd. „Auk þess sem Síminn hefur nú góðan sveigjanleika til að bregðast við hraðri þróun á fjarskiptamarkaði.“

Eftir Ómari Benediktssyni, forstjóra Farice, er haft að Síminn hafi lengi verið einn af helstu samstarfsaðilum félagsins og í upphafi einn af bakhjörlum þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×