Innlent

Ábendingar almennings ekki opinberaðar

Brjánn Jónasson skrifar
Hagræðingarhópurinn leitar leiða til að hagræða í ríkisrekstrinum, en víða hefur verið hagrætt verulega síðustu ár, til dæmis á Landspítalanum.
Hagræðingarhópurinn leitar leiða til að hagræða í ríkisrekstrinum, en víða hefur verið hagrætt verulega síðustu ár, til dæmis á Landspítalanum. Fréttablaðið/Pjetur
Tilkynnt verður á næstu dögum hvenær fyrsta áfangaskýrsla hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar verður kynnt, segir Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar. Alls bárust 570 ábendingar frá almenningi um það sem betur mætti fara í ríkisfjármálunum.

Ekki stendur til að birta ábendingarnar opinberlega, og hefur þingflokkur Vinstri grænna farið formlega fram á að fá ábendingarnar, fundargerðir hagræðingarhópsins og önnur gögn afhent.

Sigurður segir að flestum spurningum þingflokks Vinstri grænna verði væntanlega svarað með birtingu áfangaskýrslunnar. Virða verði nafnleynd þeirra sem sent hafi inn ábendingar.

Spurður hvort til standi að eyða út persónuupplýsingum úr ábendingunum og birta þær að því loknu opinberlega segir hann að ekki sé útséð með að þörf verði á því.

Í svari Ásmunds Daða Einarssonar, formanns hagræðingarhópsins, við fyrirspurn sem barst í gegnum vefinn spyr.is, segir að margir hefðu veigrað sér við að senda inn ábendingar nema gegn nafnleynd. Þar segir jafnframt að hópurinn telji sér ekki fært að fara yfir hverja einustu ábendingu og eyða út persónuupplýsingum með birtingu í huga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×