Innlent

Aðföng kvörtuðu yfir merkingum hjá Kosti

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Heildsalan Aðföng kvartaði til yfirvalda vegna merkinga á vörum í versluninni Kosti.
Heildsalan Aðföng kvartaði til yfirvalda vegna merkinga á vörum í versluninni Kosti. Fréttablaðið/Valli
„Hefur sú spurning vaknað hvort samevrópsk löggjöf um matvæli gildi alls ekki fyrir alla aðila á markaðnum,“ segir í bréfi heildsölufyrirtækisins Aðfanga til heilbrigðiseftirlitsins.

Aðföng er heildsölufyrirtæki Haga, móðurfélags Bónuss, Hagkaups og 10-11. Að því er fram kemur í bréfi Aðfanga til heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis (HHK) í byrjun júní hefur fyrirtækið allt frá árinu 2009 átt í samskiptum við Matvælastofnun um markaðssetningu vanmerktra og jafnvel ólöglegra matvæla.

Fréttablaðið/Anton
„Við nýlega athugun í Kópavogi kom í ljós að að enn eru verulegir vankantar á framkvæmd rekstraraðila og eftirfylgni HHK með löggjöf um merkingar matvæla, þar með talinni löggjöf um aukaefni í matvælum,“ segir í bréfi Aðfanga til HHK í lok ágúst.

Í fylgiskjali eru síðan ábendingar um það sem Aðföng „telja vanmerkt og jafnvel ólögleg matvæli sem nýlega voru til sölu í verslun í Kópavogi,“ eins og segir í bréfinu sem Baldvin Valgarðsson, gæðastjóri Aðfanga, sendir. Í fylgiskjalinu er vísað til verslunarinnar Kosts á Dalvegi.

Síðan spyrja Aðföng, og vísa þá til forsögu málsins, hvort samevrópsk löggjöf um matvæli gildi ekki um alla.





Baldvin Valgarðsson Gæðastjóri Aðfanga segir „vanmerkt og jafnvel ólögleg“ matvæli á boðstólum á höfuðborgarsvæðinu.
„Óska stjórnendur Aðfanga eftir því að HHK svari þeirri spurningu með skýrum og óyggjandi hætti og útskýri jafnframt hvernig ábendingum sem þessum sé sinnt og fylgt eftir af hálfu eftirlitsins,“ segir í bréfi Aðfanga, sem merkt er trúnaðarmál.

HHK svaraði bréfi Aðfanga á síðasta fundi sínum. „Allir aðilar eiga að fara eftir íslenskri löggjöf. Framkomnum erindum er sinnt með vísun til matvæla- og stjórnsýslulaga,“ bókaði HHK.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu kvaðst HHK íhuga að láta loka Kosti vegna vanmerkinga á matvöru þar. Kostur brást við með því að setja fram úrbótaáætlun sem HHK staðfesti með vettvangskönnun síðastliðinn mánudag að er komin til framkvæmda. Lögmaður Kosts segir fyrirtækið ekki vilja tjá sig um það mál.


Tengdar fréttir

Íhuga að loka á verslunina Kost

Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar og Kópavogs íhugar að veita verslunni Kosti áminningu og stöðva reksturinn vegna "vanmerktrar matvöru“.

Allt samkvæmt áætlun í Kosti

Eftirlit í versluninni Kosti á Dalvegi á mánudag leiddi í ljós að þar er unnið samkvæmt sérstakri úrbótaáætlun sem Kostur lagði fram í byrjun september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×