Innlent

Segir skort á eftirliti vera hrollvekjandi

Valur Grettisson skrifar
Ragnar Unnarsson, talsmaður lífrænna neytenda, segir hrollvekjandi að ekki sé leitað að varnarefnum eins og skordýraeitri og sveppalyfjum í korni á Íslandi.
Ragnar Unnarsson, talsmaður lífrænna neytenda, segir hrollvekjandi að ekki sé leitað að varnarefnum eins og skordýraeitri og sveppalyfjum í korni á Íslandi.
„Það er mjög hrollvekjandi að þetta hafi ekki verið kannað betur,“ segir Ragnar Unnarsson, talsmaður lífrænna neytenda, en Ísland óskaði eftir fresti til þriggja ára til að uppfylla kröfur Evrópusambandsins um mælingar á varnarefnum í matvælum, meðal annars kjötvörum, á síðasta ári. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun hefur aldrei verið leitað eftir varnarefnum í kjöti eða korni á Íslandi.

Varnarefni eru efni sem notuð eru gegn illgresi, sveppum og meindýrum við framleiðslu og geymslu matvæla og fóðurs, bæði til að verja þau og einnig til að draga úr rýrnun uppskerunnar. Varnarefnum má skipta í nokkra flokka eftir hlutverkum. Þeir helstu eru skordýraeitur, illgresiseyðar, sveppalyf og stýriefni (stjórna vexti plantna).

„Það þarf að skoða almennilega hversu mikið er af þessu í matvælum. Það má til að mynda alveg hafa í huga að það er hægt að búa til sprengiefni úr áburði,“ segir Ragnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun eru ekki miklar áhyggjur þar á bæ vegna ástands varnarefna í kjötvörum og korni. Meðal annars er bent á að sauðfé gengur frjálst stóran hluta af ári og Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar, sagði einnig í viðtali við Fréttablaðið í gær að kýr hér á landi væru aðallega fóðraðar á gróffóðri. Þetta tekur þó ekki til svína- eða kjúklingaræktunar.

Matvælastofnun hefur kannað mjög vel varnarefni í ávöxtum og grænmeti, en á síðasta ári var innleidd reglugerð frá ESB um að mæla 150 varnarefni í hverju sýni af matvælum. Nú er 61 sýni tekið. Það er Matís sem framkvæmir rannsóknir fyrir Matvælastofnun en stofnunin sótti árið 2011 um svokallaðan IPA-styrk til Evrópusambandsins, upp á 300 milljónir, til að kaupa tæki og þjálfa starfsfólk svo uppfylla mætti kröfurnar. Það var svo fallið frá því síðar og því vantar fjármagn til þess að rannsaka varnarefnin.

Aðspurður hvort ástand sauðfjár og kúa hér á landi sé ekki þokkalegt svarar Ragnar: „Lausaganga búfjár er auðvitað frábær. En það er alltaf hægt að gera betur.“

Ragnar segir að það þurfi að vera gott eftirlit með varnarefnum í íslenskum vörum, „sérstaklega í ljósi þess að furðuleg mál hafa komið upp síðustu ár, eins og þetta með iðnaðarsaltið og fleira, sem eykur ekki beinlínis tiltrúa manna á eftirlitsstofnunum“.

Þess má geta að nokkurt eftirlit er haft með kjöti í sláturhúsum en þar eru ekki varnarefni könnuð eins og fyrr segir.

Jón Hallsteinn Hallsteinsson
Erfðabreytt matvæli ekki hættuleg

„Það er langur listi alþjóðastofnana sem hafa endurtekið það margoft að það er ekkert sem bendir til þess í dag að erfðabreytt matvæli séu skaðleg mönnum eða hættulegri en önnur matvæli,“ segir Jón Hallsteinn Hallsteinsson, dósent við auðlindadeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann segir ekkert benda til þess að erfðabreytt matvæli séu skaðleg.

Aðspurður um algenga gagnrýni á erfðabreyttan matvælaiðnað, sem er að það sé fátt vitað um afleiðingar í ljósi þess að það eru ekki nema tæplega tuttugu ár síðan erfðabreytingar á matvælum hófust, svarar Jón Hallsteinn: „Það má deila um það hversu lengi við eigum að bíða. Við erum búin að erfðabreyta plöntum frá árinu 1982. Eins gætum við spurt hvaða áhrif farsímar hafa á heilsu okkar, og hversu lengi við ættum að bíða með að nota þá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×