Innlent

Sækja ellefu milljarða til þrotabúanna

Valur Grettisson skrifar
Slitastjórnir þurfa að borga rúmlega ellefu milljarða í skatt.
Slitastjórnir þurfa að borga rúmlega ellefu milljarða í skatt.
„Þarna er um umtalsverða fjármuni að ræða,“ sagði Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, en samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar verða þrotabúa gömlu bankanna ekki undanþegin bankaskatti.

Bankaskattur á heildarskuldir lánafyrirtækja og fyrirtækja sem hafa heimild til að taka við innlánum hækkar úr 0,041% í 0,145%. Í frumvarpinu segir að kostnaðurinn sé til kominn til þess að mæta þeim mikla kostnaði sem hefur fallið á ríkissjóð vegna bankahrunsins.

Tekjuáhrif þessarar aðgerðar eru áætluð 14,2 milljarðar króna á næsta ári. Áætlað er að þar af komi um 11,3 milljarðar í tekjur af „lögaðilum í slitameðferð“, þ.e. þrotabúunum.

„Þetta er töluverð hækkun,“ segir Steinunn og bætir við að forsendur hækkunarinnar verði kannaðar á næstu dögum. Hún segist ekki geta tjáð sig efnislega um hækkunina í ljósi þess að hún var ekki búin að kynna sér frumvarpið nægilega vel.

„Þetta verður hugsanlega rætt á kröfuhafafundinum,“ sagði Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi slitastjórnar gamla Landsbankans.

Slitastjórnin heldur kröfuhafafund á Hótel Reykjavík Natura í dag.

Hann tekur í sama streng og Steinunn og segir að málið verði skoðað á næstu dögum og að slitastjórn hafi ekki gefist ráðrúm til þess að kanna áhrif skattsins á þrotabúið. Líkt og Steinunn vissi hann ekki af fyrirhuguðum skatti fyrr en eftir að ríkisstjórnin kynnti frumvarpið í gær.

Fram kemur í fjárlagafrumvarpinu að sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki hafi verið markmið lagasetningarinnar, meðal annars með því að afla ríkinu tekna til að mæta þeim mikla kostnaði sem fallið hefur á ríkissjóð vegna hruns íslenska fjármálakerfisins. Fjármálafyrirtæki í slitameðferð hafa verið undanþegin greiðslu skattsins undanfarin ár en í frumvarpinu segir að ekki þyki ástæða til að viðhalda þeirri undanþágu.

Féð sem fæst með skattinum á þrotabúin, sem er rúmlega ellefu milljarðar, mun verða 85 prósent af nettóáhrifum af skattabreytingunum í fjárlagafrumvarpinu.

Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, hafði ekki kynnt sér fjárlagafrumvarpið í gær og treysti sér ekki til að tjá sig um það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×