Íslenski boltinn

Atli fékk fréttir af bekknum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Atli Viðar er ein mesta markamaskína sem hefur spilað hér á landi.
fréttablaðið/valli
Atli Viðar er ein mesta markamaskína sem hefur spilað hér á landi. fréttablaðið/valli
Það var hart barist um gullskóinn sem markahæsti leikmaður Pepsi-deildar karla fær. Þrír leikmenn enduðu með 13 mörk í deildinni: FH-ingurinn Atli Viðar Björnsson, KR-ingurinn Gary Martin og Fylkismaðurinn Viðar Örn Kjartansson. Atli Viðar lék fæsta leiki af þremenningunum og fær því gullskóinn.

„Ég viðurkenni að þegar við vorum svo gott sem búnir að vinna leikinn þá frétti ég af því að mig vantaði eitt mark í viðbót í gullskóinn. Þá fór ég að svindla aðeins og svo þegar markið kom undir lokin fór ég að hugsa um að þetta væri kannski loksins að gerast,“ sagði hinn 33 ára gamli Atli Viðar, en hann fékk tíðindin frá félögum sínum af bekknum í síðari hálfleik. Hann hafði tvisvar sinnum áður fengið silfurskóinn og einu sinni bronsskóinn.

„Það er mjög góð tilfinning að hafa loksins fengið skóinn. Virkilega gaman að ná honum á síðustu metrunum. Við sóknarmenn erum eðlilega svolítið uppteknir af þessu.“

Atli Viðar er búinn að skora 90 mörk fyrir FH í efstu deild og fór í sumar upp fyrir Hörð Magnússon sem markahæsti FH-ingurinn í efstu deild. Hann er nýbúinn að skrifa undir nýjan eins árs samning og stefnan hlýtur að vera sett á 100 mörk?

„Ég vil ekki gefa neitt út en það væri gaman að ná því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×