„Hér eru óþrjótandi möguleikar fyrir framtakssama aðila,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri um uppbyggingaráform í gamla bænum á Akranesi.
Regína segir bæjaryfirvöld og aðra hagsmunaaðila á Akranesi nú vinna markvisst að því að snúa vörn í sókn í gamla miðbænum, meðal annars til að efla ferðamennsku.
„Það eru fjölmargir vaxtarbroddar í bænum, til dæmis sem tengjast vitunum á Breiðinni, einnig í tengslum við Langasand, golfvöllinn og í sjávartengdri ferðamennsku eins og hvalaskoðun og sjóstangveiði. Það sem flestir ferðamenn eiga sameiginlegt er að þeir sækjast í eldri hluta bæja og borga og þar verðum við að gera betur,“ segir bæjarstjórinn.
Regína segir mörg gömul og virðuleg hús í miðbænum hafa staðið auð um árabil og vera farin að láta verulega á sjá. „Ástæðan er sú að húsin, eða íbúðir í þeim, eru í eigu lánastofnana og ekki hefur verið unnt að leigja þau þótt leiguhúsnæði hafi vantað á Akranesi, sökum ástands íbúðanna og húsanna,“ segir hún.
Samkomulag hefur náðst við Íbúðalánasjóð um sölu á fimmtán íbúðum í eldri hluta bæjarins. Regína segir vonast til að væntanlegir kaupendur geri íbúðirnar upp til ábúðar eða leigu því mikill skortur sé á leiguhúsnæði.
Akraneskaupstaður keypti gamla Landsbankahúsið við Akratorg sem stóð autt um árabil og rak þar upplýsingamiðstöð ferðamanna í sumar. Framkvæmdir við torgið eiga að verða liður í að breyta ásýnd gamla miðbæjarins og auka líf þar að nýju.
Þá hafa bæjaryfirvöld átt í viðræðum við forsvarsmenn Sementsverksmiðjunnar sem er hætt framleiðslu. Verksmiðjan nær yfir sex hektara og tengist útivistarsvæðinu á Langasandi og Jaðarsbökkum og einnig gamla miðbænum og Akratorginu. Skipulag svæðisins verður rætt á íbúafundi í nóvember. „Þar verður ákveðnum skipulagshugmyndum varpað fram sem fundarmenn geta síðan spunnið út frá eða komið með nýjar,“ segir Regína, sem kveður flesta bæjarbúa hafa skoðun á þessum reit.
Fram hefur komið í Fréttablaðinu að Faxaflóahafnir ætla að selja Hafnarhúsið á Akranesi undir þeim formerkjum að þar verði veitingasala eða önnur starfsemi tengd ferðamennsku.
„Þá má nefna að nokkrir aðilar hafa rætt við bæjaryfirvöld um að starfrækja hótel á Akranesi en það hefur lengi verið skortur á hóteli sem er opið allt árið,“ segir bæjarstjórinn.
Uppstokkun á að hleypa lífi í miðbæinn á Akranesi
