Handbolti

Fannst tennurnar vera skakkar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Arnór hefur bætt leik sinn mikið síðustu ár. Hann fékk tækifæri með landsliðinu á HM á Spáni þar sem hann átti eftirminnilegar innkomur.
Arnór hefur bætt leik sinn mikið síðustu ár. Hann fékk tækifæri með landsliðinu á HM á Spáni þar sem hann átti eftirminnilegar innkomur. Mynd/Vilhelm
„Þetta gerðist mjög snemma í leiknum. Ég fiskaði ruðning og fékk þá olnboga í andlitið. Ég ligg aðeins á vellinum en þegar ég stend upp finnst mér tennurnar í mér vera skakkar. Þá ákvað ég að fara af velli,“ segir Arnór Þór Gunnarsson þar sem hann lá á sjúkrabeði í Þýskalandi.

Þar þarf hann að liggja fram að helgi enda þurfti hann að fara í aðgerð eftir að hafa kjálkabrotnað í leik gegn Wetzlar.

„Læknar Bergischer sögðu mér að það væri allt í fínu lagi með tennurnar á mér. Þá spurði ég af hverju bitið væri svona vitlaust? Á spítalanum sást brotið ekki á röntgenmyndum. Það var ekki fyrr en þeir tóku sneiðmynd sem brotið sást. Þetta er í innanverðum kjálkanum og er talsvert brot.“

Mjög svekkjandi

Þessi meiðsli munu gera það að verkum að Arnór Þór mun ekki geta leikið með liði sínu, Bergischer, í tvo og hálfan mánuð. Hann má þó fara að hlaupa og lyfta strax í næstu viku.

„Það er gríðarlega leiðinlegt að detta svona út. Í fyrra vorum við tveir að skipta með okkur hornamannsstöðunni en ég hef átt hana í vetur og verið að spila vel. Það er ekki síst leiðinlegt þar sem liðinu hefur gengið gríðarlega vel. Ég vonast samt til þess að byrja að spila fyrr en læknarnir segja.“

Þar hitti Arnór naglann á höfuðið en lið hans hefur komið allra liða mest á óvart í deildinni í vetur.

Það tapaði með tíu marka mun gegn meisturum Kiel í fyrstu umferð og hefur síðan unnið fjóra leiki í röð. Þar af var sannfærandi sjö marka sigur gegn Meistaradeildarmeisturum Hamburg.

Björgvin alveg frábær

Bergischer er nýliði í þýsku úrvalsdeildinni en liðið vann B-deildina nokkuð sannfærandi síðasta vetur.

„Við erum með hörkulið. Þetta var eiginlega nýtt lið í fyrra og nú þekkjumst við betur og spilum betur. Þetta hefur svo eiginlega allt gengið upp það sem af er vetri,“ segir Arnór en hann hrósar félaga sínum Björgvini Páli Gústavssyni, sem virðist vera að finna sitt fyrra form.

Arnór fer heim af spítalanum á morgun. Á meðan verður hann að ligga í rúminu og nærast á súpum.mynd/aðsend
„Bjöggi er búinn að vera virkilega góður og það hefur heldur betur munað um frammistöðu hans. Við erum að spila frábæra vörn og Bjöggi hefur verið í stuði þar fyrir aftan. Fyrir vikið erum við að fá auðveld hraðaupphlaupsmörk.“

Lykilleikmaður liðsins er þó hinn ólseigi Austurríkismaður Viktor Szilagyi. Hann hefur farið algjörlega á kostum og er að skora sjö til átta mörk í leik.

„Hann hefur verið algjörlega frábær. Hann stjórnar öllu hjá okkur og kann þetta allt saman. Það munar um svona menn. Svo erum við líka með fleiri góða menn. Það er fín blanda í þessu liði og allir eru að ná virkilega vel saman.“

Þrátt fyrir gott gengi í upphafi móts eru leikmenn liðsins ekkert að missa sig.

„Markmiðið hjá okkur er enn það sama og áður. Það er að halda sæti okkar í deildinni. Þessir punktar sem eru komnir verða ekki teknir af okkur og gætu vegið þungt. Við erum líka bjartsýnir enda eigum við góða möguleika í næstu leikjum sem eru gegn Melsungen, Minden og Balingen. Þetta eru allt leikir sem við getum unnið,“ segir Arnór en lið hans er í fjórða sæti deildarinnar með jafnmörg stig og lið Dags Sigurðssonar, Füchse Berlin.

„Það er mikil stemning í bænum og við leikmenn fáum ekki eins marga miða til þess að gefa nú og í fyrra. Það var uppselt bæði gegn Kiel og Eisenach hjá okkur og verður líklega þannig áfram.“

Arnór sló eftirminnilega í gegn með landsliðinu á HM í janúar. Hann segir að eitt af því jákvæða við meiðslin væri að þau hefðu komið núna. Hann væri því búinn að jafna sig talsvert fyrir EM í Danmörku.

„Aron landsliðsþjálfari er búinn að hringja í mig og athuga með stöðuna. Ég hef auðvitað mikinn metnað fyrir því að halda mér í landsliðinu. Það var frábært að spila á HM og það er mesti heiður sem manni getur hlotnast að spila fyrir Ísland. Vonandi fæ ég tækifæri til þess að spila með liðinu á EM.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×