Handbolti

Rúnar snýr aftur í þýsku úrvalsdeildina

Aron Guðmundsson skrifar
Rúnar er mættur aftur í þýsku úrvalsdeildina
Rúnar er mættur aftur í þýsku úrvalsdeildina Mynd: Wetzlar

Rúnar Sigtryggsson er mættur aftur í þjálfun og þýsku úrvalsdeildina í handbolta. Hann hefur verið ráðinn þjálfari Wetzlar. 

Frá þessu greinir félagið í tilkynningu í dag en Rúnar skrifar undir samning við Wetzlar út tímabilið 2026/27. 

Þetta er fyrsta þjálfarastarf Rúnars síðan að hann var látinn fara frá þýska úrvalsdeildarfélaginu Leipzig síðastliðið sumar eftir að hafa tekið við þjálfun liðsins árið 2022. 

Wetzlar er í næstneðsta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með fimm stig þegar að sextán umferðir eru búnar af deildinni. Liðið er með jafnmörg stig og Leipzig sem vermir botnsætið.

Rúnar hefur síðan að honum var sagt upp störfum hjá Leipzig verið búsettur í Þýskalandi og fylgst vel með þýska boltanum

„Ég hef fylgst vel með þýsku deildinni undanfarna mánuði og séð nokkra leiki hjá Wetzlar,“ segir Rúnar í yfirlýsingu Wetzlar. „Liðið á svo sannarlega möguleika á því að halda sæti sínu í deildinni. Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um þegar að þetta verkefni bauðst. Vissulega er staðan erfið eins og er en ég er sannfærður um að við munum vinna okkur upp töfluna og frá fallsvæðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×