Innlent

Vilja að allir sjálfstæðismenn fái að kjósa

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Mikil ólga er innan Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Hópur innan stjórnar ráðsins er ósáttur við þá hugmynd að leiðtogaprófkjör verði haldið fyrir komandi borgarstjórnarkosningarnar.

„Það er lang sigurstranglegast ef allir sjálfstæðismenn koma að gerð listans og við munum leggja fram tillögu þess efnis að það verði haldin almenn prófkjör þar sem allir sjálfstæðismenn fá að kjósa,” segir Ingvar Smári Birgisson, formaður Heimdallar.

Fulltrúar Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna, og hverfafélagsins í miðbæ og vesturbæ eru einnig ósáttir við að fara þessa nýju leið.

Vörður fékk í gær álit miðstjórnar flokksins um hvort skipulagsreglur hans heimili blandaða leið, það er að leiðtogi verði kosinn, fulltrúaráðið raði svo í nokkur næstu sæti og uppstillingarnefnd raði svo afganginum. Miðstjórn telur að reglurnar girði ekki fyrir þessa leið.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir ekki ástæðu til að taka fram fyrir hendurnar á fulltrúaráðinu.

Hanna Birna Kristjánsdóttir varaformaður segir ákvörðunina vera fulltrúaráðsins. „En mín skoðun er sú að alltaf sé best að hleypa sem flestum að svona ákvörðunum, hafa þetta eins lýðræðislegt og opið og mögulegt er,” sagði Hanna Birna.

Málið verður rætt á félagsfundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×