Innlent

Ekkert nema bjartsýni í boði

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Regína Rós vandar sig mikið við að hitta með hring á einn pinnann. Hún nýtur stuðnings föður síns, Hagbarðar, og systkinin Róbert Hólm og Rakel María fylgjast spennt með.
Regína Rós vandar sig mikið við að hitta með hring á einn pinnann. Hún nýtur stuðnings föður síns, Hagbarðar, og systkinin Róbert Hólm og Rakel María fylgjast spennt með. Myndir/Fríða Árnadóttir
Ég lít ekki á þetta ástand sem vandamál. Það er bara staðreynd og ég tek þessu sem verkefni. Ef ég ætla að fara að hugsa um það sem endalausa erfiðleika er ég búinn að koma sjálfum mér í rosaleg vandræði og hengja á mig einhvers konar blýskó, það er ekki gáfulegt,“ segir Hagbarður Valsson, einstæður faðir í Ósló sem fyrir viku fékk yngsta barnið sitt af fjórum heim af spítala.

Það er stúlkan Rósa Jóna sem fæddist tveimur mánuðum fyrir tímann 12. júní í sumar er móðir hennar, Guðrún Guðmunda Sigurðardóttir, fékk skyndilega hjartastopp og lést stuttu síðar.

„Stúlkan var tekin með keisaraskurði hér á stofugólfinu. Það er afar sjaldgæft á heimsvísu að slíkar aðgerðir séu gerðar í heimahúsi en hún var fyrst og fremst tilraun til að bjarga lífi móður hennar,“ segir Hagbarður og telur þessa litlu dóttur hreint kraftaverk. „Það var ekki búist við að hún lifði. Hjartað í henni sló ekkert þegar hún var tekin út og það tók tvær mínútur að pumpa það í gang. Hún er með heilaskemmd sem bendir til súrefnisskorts en það er ómögulegt að segja hvað það þýðir. Höfuðið er að stækka og heilinn að vaxa þannig að ég er vongóður um að hún komi til með að ná sér. En það tekur tíma, það er ekki spurning. Þangað til er þetta mikil vinna og um hana snýst bara lífið mitt núna.“

Stendur ekki einn

Við Hagbarður þurfum að slíta símtalinu í skyndi því píp heyrist frá tæki sem tengt er við Rósu Jónu. Þegar ég áræði að hringja aftur hálftíma síðar er faðirinn yfirvegaður sem fyrr. „Þetta er í góðu lagi núna. Sú litla er með mælitæki sem sýnir bæði blóðþrýsting og súrefnismettun og það gefur frá sér hljóð ef súrefnismettunin dettur niður. Slíkt gerist ef kokið fyllist af slími.

Rósa Jóna fær næringu gegnum sondu og er með vél sem sýgur slímið burt, en ég reyni að gera eins lítið af því og ég get að nota hana, því hún verður alltaf flinkari og flinkari að ráða við þetta sjálf. Hún kann samt ekki að kyngja enn þá og er heldur ekki með þá sogþörf sem er nauðsynleg til að geta drukkið úr pela en ég reyni að þjálfa hana í því. Það gengur betur en fyrir mánuði. Framfarirnar eru hægar en þær eru þó merkjanlegar.“

Hagbarður kveðst langt frá því að standa einn. Móðir hans, Úlfhildur Jónasdóttir, hafi komið til hans frá Íslandi um síðustu helgi og ætli að dvelja hjá honum og börnunum fram að áramótum. Einnig búi tengdamóðir hans, Unnur Gunnarsdóttir, stutt frá og sé mikil stoð og stytta. „Ég kem úr stórri fjölskyldu og á hér margt skyldfólk. Hef búið hér í Ósló meira og minna í 25 ár og á góða vini, góða nágranna og góða fjölskyldu.“

Við græjurnar Hagbarður setur upp næringu í poka fyrir Rósu Jónu.
Algert reiðarslag

Guðrún var aðeins 34 ára þegar hún lést. Hún hvílir nú í Nittedal-kirkjugarði sem er rétt hjá heimili hennar. Hagbarður segir andlát hennar hafa verið algert reiðarslag, hún hafi aldrei haft nein sjúkdómseinkenni frá hjarta. 

„Þetta hjartastopp kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Það getur greinilega komið fyrir alla og það er sjálfsagt að gera sér grein fyrir því hvað það þýðir ef maður fellur allt í einu frá, þó held ég að ekki sé hollt að hugsa of mikið um það. Maður verður bara að lifa og svo þegar þetta er búið er það búið. Það einasta sem er öruggt í lífinu, það er dauðinn.“

Guðrún og Hagbarður voru búin að ákveða nafnið á Rósu Jónu áður en hún fæddist. Hagbarður segir hana skírða eftir ömmu hans í föðurætt. 

Hin börnin þrjú á heimilinu eru Rakel María 13 ára, sem fermdist í vor fáum vikum áður en móðir hennar dó, Róbert Hólm 11 ára og Regína Rós, sem er tveggja ára. Þau eru í skóla og leikskóla og faðir þeirra er stoltur af þeim. „Þau bera sig mjög vel og eru sterk en eiga líka auðvitað sín erfiðu augnablik. Þá verð ég að vera til staðar fyrir þau. En ég legg líka áherslu á að það sé allt í lagi að vera leiður og líka að gráta. Reyni bara að hafa þetta sem eðlilegast.“

Telpurnar tvær, Rakel María og Regína Rós, voru heima þegar móðir þeirra veiktist og Rósa Jóna fæddist. Hagbarður segir börnin oft tala um mömmu. „Við erum samt mest að velta fyrir okkur hvernig við getum hugsað um Rósu Jónu og hvernig við getum byggt okkar heimili í framtíðinni. Þá spekúlerum við í hvernig mamma þeirra hefði viljað hafa hlutina. Við erum ekkert feimin að tala um hana.“

Hann segir Rósu Jónu með mynd af mömmu sinni fyrir framan sig þegar hún opnar augun í vöggunni. „Við erum líka með nokkrar myndir af Guðrúnu hér á heimilinu. Regína Rós litla, sem er tveggja ára, bendir oft á mynd af mömmu sinni og kallar „mamma“. Stundum segir hún „mamma koma“. Þá verð ég að segja henni, á eins eðlilegan hátt og hægt er, að það sé ekki alveg þannig. Það þýðir ekkert annað. Þetta er sárt og við eigum eftir að finna fyrir þeim sársauka í mörg ár í alls konar samhengi. Það verða afmæli og jól, fermingar og jafnvel giftingar þar sem söknuðurinn brýst fram. Það er óhjákvæmilegt.“ 

En hvað um sálfræðiaðstoð? Hefur Hagbarður þurft á henni að halda til að yfirstíga áfallið? „Nei, ekki enn þá. Það kemur kannski að því en ég hef nóg að gera og hef ekki tíma til að bora mér einhvers staðar til að vorkenna sjálfum mér,“ segir hann rólega. Hann kveðst meðal annars sjá um heimilisstörfin og vex það ekkert í augum. „Nú er mamma líka komin til mín enda þarf ég aðeins fleiri hendur. Ég verð til dæmis að komast út í búð til að versla. Það þýðir að ég verð að geta skilið Rósu Jónu eftir hjá einhverjum sem veit hvað á að gera ef kokið er að lokast.“

Þarf sólarhringsvöktun

Rósa Jóna þarf vöktun allan sólarhringinn enn þá að sögn Hagbarðar. Því koma hjúkrunarkonur til hennar á kvöldin og sjá um hana á nóttunni. „Sú litla kom bara heim á föstudaginn af sjúkrahúsinu og síðan erum við búin að vera að þróa ýmislegt, meðal annars tilhögun næturvaktanna,“ segir hann. 

„Það er tveggja herbergja íbúð laus hér á fyrstu hæðinni í húsinu sem við leigjum í og eigandinn leyfir okkur að nota hana sem bækistöð fyrir Rósu Jónu á nóttunni. Þá hefur næturvaktin aðstöðu þar og við hin getum sofið. Við höfum prófað líka að ég sé með hana yfir nóttina og næturvaktin fylgist bara með en ég náði tveggja tíma svefni þá nótt og hjúkrunarkonurnar töldu enga framtíð í því. Ég hef jú þremur öðrum börnum að sinna og þau þurfa sína athygli og umhyggju.“ 

Þrátt fyrir að norska heilbrigðiskerfið sé oft gagnrýnt, að sögn Hagbarðar, segir hann það hafa reynst honum afar vel. „Eflaust er margt að en viðbrögðin sem ég fékk og öll sú hjálp og aðstoð sem ég hef notið er alveg til fyrirmyndar og sýnir manni hvað það er mikils virði að hafa svona kerfi. Ég hefði aldrei getað gert mér grein fyrir því nema af því ég er í miðju kafi að nota það.“ 

Eins og fram er komið hefur Hagbarður búið í Ósló að mestu í aldarfjórðung. Nú rétt norðan við borgarmörkin, á stað sem nefnist Hagan og er í grennd við Gardemoen-flugvöll og Lilleström. „Það er yndislegt að búa hér,“ segir hann. „Ég er búinn að vera úti um alla Ósló og þetta er besta hverfið sem ég hef búið í. Það er mjög barnvænt, krakkarnir hafa verið hér í leikskóla og skóla alla tíð. Rakel er í níunda bekk og Róbert í sjötta bekk. Við erum ekkert á leiðinni héðan.“

En hvar skyldu leiðir Hagbarðar og Guðrúnar hafa legið saman í upphafi? „Ég flutti hingað út með foreldrum mínum og einum bróður árið 1988. Guðrún kom hingað til Óslóar sem au pair 1997 og við kynntumst þá,“ upplýsir hann. „Við bjuggum saman á Íslandi 2000 og 2001 og fluttum svo út aftur. Unnur, móðir Guðrúnar, kom út stuttu seinna og tvö börn Unnar búa hér líka. Ég er yngstur af sjö systkinum og þrjú þeirra búa hér, fyrir utan mig. Ég held að mamma og pabbi eigi um 40 afkomendur og um helmingur þeirra er hér þannig að börnin mín eiga hér fullt af frændfólki,“ segir hann og bætir við glettnislega: „Það er rosalega gott að hafa allt þetta pakk í kringum sig.“ 

Rósa Jóna Í fangi föður síns„Við höldum á henni eins mikið og við mögulega getum,“ segir Hagbarður.
Aðstoð reiknuð út frá launum

Hagbarður hefur unnið sjálfstætt síðustu ár sem verktaki við framleiðslu sjónvarpsefnis, einkum við forvinnu og skipulagningu. „Þegar búið er að ákveða eitthvert framleiðsluverkefni er ég vanalega sá fyrsti sem er ráðinn til að kortleggja það, ráða myndatökumenn, hljóðmenn og fleiri og útvega það sem þarf.“ 

Hann segir þann galla á því að starfa sjálfstætt að tekjur séu mjög óreglulegar. „Ég hef tekið mér eins lítil laun og ég hef komist af með. Svo fæ ég það í bakið nú þegar ég þarf aðstoð frá hinu opinbera, því hún er reiknuð út frá launum,“ lýsir hann en kveðst þó ekki hafa þurft að greiða fyrir heilbrigðisþjónustuna. 

Hagbarður hefur, að eigin sögn, ekkert komið nálægt íslensku sjónvarpsefni. Hins vegar hafi hann verið á Íslandi við upptökur á norsku efni sem hafi verið sýnt í mörgum löndum. „En af því ég er í þeirri aðstöðu núna sem ég er í, hef ég sett í gang eigið verkefni sem gæti verið tekið upp á Íslandi,“ upplýsir hann. Er hann þá kannski væntanlegur hingað til lands?

„Það getur vel hugsast. Það er líka verið að undirbúa styrktartónleika fyrir okkur fjölskylduna í Mosfellsbæ, því það var heimabær Guðrúnar konu minnar. Kannski get ég verið viðstaddur þá tónleika og undirbúið verkefnið mitt og slegið þannig tvær flugur í einu höggi. En það fer auðvitað eftir ástandinu hér heima. Hjúkrunarkonurnar sem hingað hafa komið á næturvaktir eru í tengslum við heimili sem Rósa Jóna getur fengið innlögn á af og til. Hin börnin geta verið hjá ömmum sínum ef ég skrepp heim.“

Fylgist með því sem fram fer

Rósa Jóna litla er oft glaðvakandi hluta úr dögunum og fylgist með því sem fram fer í kringum hana, að sögn föðurins. 

„Hún hefur augnsamband og lætur í sér heyra þegar sá gállinn er á henni. Lungun og meltingarfærin eru í fínu lagi, hún fékk súrefni í nokkra sólarhringa en hefur samt verið stabíl alveg síðan nóttina eftir fæðingu og hefur ekki þurft neina öndunaraðstoð, nema þegar henni svelgist á munnvatni. En hún er svolítið slöpp í kroppnum og vöðvarýr. Þó er hún alltaf að styrkjast, enda fær hún sjúkraþjálfun. Við höldum líka á henni eins mikið og við mögulega getum. Þá eru engin tæki tengd við hana. Hún snýr höfðinu og er oft að reyna að lyfta því,“ lýsir hann og kveðst gera sér vonir um að Rósa Jóna eigi gott líf fyrir höndum. 

„Ég hef talað við aðra sem hafa lent í svipuðum tilfellum, með jafnvel enn veikari börn sem hafa plumað sig vel þannig að ég hef enga ástæðu til annars en vera bjartsýnn.“



Til styrktar Hagbarði og börnunum

Árlegir styrktartónleikar Kirkjukórs Lágafellssóknar 28. september í Grafarvogskirkju klukkan 16.

Tónleikarnir hafa yfirskriftina Stjörnuljós og allur ágóði þeirra rennur til Hagbarðar Valssonar og barnanna hans fjögurra í Noregi.

Guðrún Sigurðardóttir, eiginkona Hagbarðar og móðir barnanna, andaðist á sviplegan hátt í júní síðastliðnum. Hún var ættuð úr Mosfellssveit og því ákvað kirkjukórinn að fjölskyldan hennar nyti góðs af tónleikunum í ár.

Listamenn á tónleikunum verðaKK, Ragnheiður Gröndal, Jóhann Friðgeir Valdimarsson, Hulda Björk Garðarsdóttir, Björg Þórhallsdóttir, Hilmar Örn Agnarsson og Elísabet Waage hörpuleikari, Karlakórinn Þrestir, unglingakórinn Vox populi og Kirkjukór Lágafellssóknar. Einnig mun strengjasveit, ásamt klarinettuleikara, spila undir stjórn Hjörleifs Valssonar fiðluleikara, bróður Hagbarðar. Þess má geta að Hjörleifur hefur leikið á tugum styrktartónleika vegna hinna ýmsu málefna.

Sem dæmi um atriði á tónleikunum má nefna að KK tekur Vegbúann með Þröstunum. Einnig syngja Jóhann Friðgeir og Hulda Björk saman í dúett Amigos Parasiempre með kirkjukórnum og Jóhann Friðgeir tekur fræga turnaríu úr Toscu við meðleik strengjasveitar. Leikið verður á pákur og symbala í lokalaginu, Úr útsæ rísa Íslands fjöll, með Þröstum, kirkjukórnum og öllum hinum.

Listamennirnir gefa að sjálfsögðu vinnu sína og leggja málefninu lið af ánægju og örlæti, að sögn Arnhildar Valgarðsdóttur, organista Lágafellssóknar og stjórnanda viðburðarins.

Aðgangseyrir Þrjú þúsund krónur en ókeypis er fyrir börn undir tólf ára. Posi verður á staðnum.

forsala miða Einnig verður hægt að kaupa miða í forsölu hjá Arnhildi sem er með netfangið arnhildurv@simnet.is.


Tengdar fréttir

Til styrktar Hagbarði og börnunum

Árlegir styrktartónleikar Kirkjukórs Lágafellssóknar verða 28. september í Grafarvogskirkju klukkan 16. Þeir hafa yfirskriftina Stjörnuljós og allur ágóði þeirra rennur til Hagbarðar Valssonar og barnanna hans fjögurra í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×