Fótbolti

Við verðum að brjóta þá niður og vera sterkari og grimmari í návígi

Henry Birgir Gunnarsson í Bern skrifar
Mynd / Valli
Það mun væntanlega mikið mæða á miðverðinum Ragnari Sigurðssyni í leiknum í kvöld. Sviss er með gríðarlega öflugt sóknarlið og það verður væntanlega nóg að gera hjá Ragnari og félögum.

„Það er alltaf skemmtilegast að spila við þjóðir sem eiga að vera betri en við. Það er ákveðin áskorun og við erum búnir undir hana,“ sagði Ragnar ákveðinn.

„Þeir eru ótrúlega flinkir í fótbolta. Ég held að þeir séu með betra lið en við á pappírunum. Það gefur aukinn kraft og við verðum tilbúnir í slaginn.“

Ragnar ætlar enga virðingu að bera fyrir mótherjum sínum á morgun og mun láta þá finna fyrir sér.

„Við verðum að brjóta þá niður og vera sterkari og grimmari í návígi. Það búast allir við því að þeir valti yfir okkur og spili í kringum okkur. Þá verðum við að berja aðeins á þeim. Við erum líka með sterka sóknarmenn. Ef við spilum góða vörn og skorum nokkur mörk gætum við tekið þá. Ég held alltaf að ég vinni er ég labba inn á völlinn og ég hef trú á því að við séum að fara að vinna leikinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×