Innlent

Ríkið greiðir milljónir vegna herferðar sem var hætt við

Boði Logason skrifar
Inspired by Iceland kostaði íslenska ríkið 700 milljónir en talið er að það hafi skilað sér allt að fimmtíufalt til baka.
Inspired by Iceland kostaði íslenska ríkið 700 milljónir en talið er að það hafi skilað sér allt að fimmtíufalt til baka. Mynd/aðsend
Íslenska ríkið hefur fallist á að greiða auglýsingastofunum ENNEMM og Hvítahúsinu tíu milljónir króna í skaðabætur vegna tilboðsgerðar í herferð sem síðar varð Inspired by Iceland.

Alls voru fimm auglýsingastofur sem gerðu tilboð í verkið en þegar þær höfðu skilað inn tilboðum sínum hætti iðnaðarráðuneytið við útboðið og fór í staðinn í markaðsátakið Inspired by Iceland.

Ein af þessum auglýsingastofum, Jónsson & Le‘macks, fór þá í mál við íslenska ríkið eftir að það neitaði að greiða útlagðan kostnað vegna tilboðsgerðarinnar. Málið vannst í Hæstarétti og var íslenska ríkinu gert að greiða auglýsingastofunni skaðabætur.

ENNEMM og Hvíta húsið sendu þá sams konar reikninga á ráðuneytið með vísan í dóm Hæstaréttar. Ráðuneytið neitaði að greiða þeim reikningana, meðal annars á þeim forsendum að auglýsingastofurnar tvær hefðu ekki átt raunhæfa möguleika á að vera valdar.

Auglýsingastofurnar mótmæltu þessu og sögðu meðal annars að allar auglýsingastofurnar hefðu átt raunhæfan möguleika á að vera valdar til að sinna verkefninu – líkt og kom fram í nýföllnum dómi Hæstaréttar.

Í ágúst síðastliðnum féllst ráðuneytið á að greiða kröfur ENNEMM og Hvíta hússins að fullu, ásamt vöxtum, dráttarvöxtum og kostnaði. Krafan hefur nú verið greidd af íslenska ríkinu, yfir tíu milljónir króna.

Búast má við því að hinar tvær auglýsingastofurnar, Fíton og Íslenska auglýsingastofan, sem sendu einnig tilboð í verkið krefji ríkið um sams konar skaðabætur. 

Þá er kostnaður íslenska ríkisins orðinn töluverður vegna útboðsins. Ríkið greiddi Jónson & le'macks hátt í sex milljónir króna í skaðabætur, Hvíta húsinu og ENNEMM yfir tíu milljónir. Þá er ekki tekinn með lögfræðikostnaður. Þá má búast við að kostnaðurinn hækki ennfrekar ef ríkið sér fram á að þurfa að greiða, Fíton og Íslensku auglýsingastofunni, skaðabætur vegna tilboðsgerðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×