Innlent

Niðurlæging busa á undanhaldi

Þorgils Jónsson skrifar
Eðlisbreyting hefur orðið á busavígslum í mörgum framhaldsskólum. Meira er lagt upp úr því að gera daginn skemmtilegan og eftirminnilegan en að niðurlægja busa. Þessi mynd er frá busavígslu Kvennaskólans árið 2010.
Eðlisbreyting hefur orðið á busavígslum í mörgum framhaldsskólum. Meira er lagt upp úr því að gera daginn skemmtilegan og eftirminnilegan en að niðurlægja busa. Þessi mynd er frá busavígslu Kvennaskólans árið 2010.
Sífellt fleiri framhaldsskólar leggja nú af hefðbundnar busavígslur, sem í gegnum árin hafa einkennst af því að eldri nemendur láta nýnema ganga í gegnum margs konar raunir. Í verstu tilfellum hafa þessar uppákomur haft á sér yfirbragð ógnunar og niðurlægingar, sem nú er reynt að sporna við. 

Ólafur H. Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum, segir stjórnendur í flestum skólum reyna að losna við verstu dæmin í þessum málum.

„Við erum enn að tempra þetta niður. Nemendaráðin og nýnemarnir vilja hafa eitthvað svona [árlegar nýnemavígslur], en við höfum sagt að ef einhver einn fer skælandi heim, þá hefur þeim mistekist.“

Ólafur segir að ekki sé hægt að koma í veg fyrir allt slíkt þar sem í sumum tilfellum séu nýnemar teknir út fyrir skólalóðina.

„Eins og er alltaf í tengslum við svona koma fram ofbeldisseggir sem reyna að nota tækifærið og það er nokkuð sem við viljum alls ekki.“

Þetta haustið hafa fjölmargir skólar boðað stefnubreytingu í þessum efnum. Meðal annars verða nýnemar í Fjölbrautaskóla Suðurlands ekki busaðir, frekar en jafnaldrar þeirra í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, og í vikunni tilkynnti skólameistari Fjölbrautaskóla Garðabæjar að ekki yrðu fleiri busavígslur á vegum skólans.

Busavígslan í Verkmenntaskóla Austurlands komst í fréttir í fyrrahaust þar sem nýnemar voru meðal annars látnir velta sér upp úr slori og drullu. Elvar Jónsson skólameistari segir hins vegar að skólinn hafi nú snúið við blaðinu.

„Stór hluti af því sem við erum að gera nú er að bjóða nýnemum í kökuboð og bíó og þess háttar. Við leyfum eldri nemendum að vísu aðeins að vígja þau nýju, en við erum búin að skera úr allt sem gæti kallast niðurlæging og enginn einn verður tekinn út fyrir.“



Vígslur fylgja aldrinum

Cilia Úlfsdóttir þjóðfræðingur skrifaði meistararitgerð um siði í mennta- og framhaldsskólum á Íslandi. Aðspurð um það hvort busavígslur eins og hafa tíðkast í gegnum árin séu á undanhaldi, segir hún að það sé óvíst.

„Alls staðar í heiminum eru innvígslur á svipuðum aldri. Þetta fylgir aldrinum og því að koma inn í nýjan hóp. Ég er hrædd um að ef lokað er alveg fyrir busavígslur eins og FG gerir, þá muni bara færast meiri harka í busanir fyrir utan skólann.“

Aðspurð um framtíðina segir hún að samráð við nemendur sé lykillinn.

„Það hefur verið reynt að breyta þessu í gegnum árin, en það þarf að vera í samráði við krakkana til þess að breytingarnar gangi upp. Það ætti ekkert að standa í vegi fyrir því að koma þessum málum í annað form ef allir eru sáttir.“

Snýst um hefðir og stemningu

Laufey María Jóhannsdóttir, formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema, segir nemendur sjá málið öðrum augum. Þeir eru ósáttir við að skólastjórnendur hlutist til um nýnemavígslurnar.

„Skólarnir vilja auðvitað sjá til þess að ekki sé of langt gengið í vígslunum, en nemendum finnst mörgum sem verið sé að herða reglurnar of mikið.“

Laufey segir að nýnemavígslur snúist fyrst og fremst um hefðir og stemningu. „Það ætti því að vera hægt að halda busavígslum áfram svo lengi sem enginn meiðist og allir njóta dagsins, bæði böðlar og busar, og að borin sé virðing fyrir mörkum hvers og eins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×