Innlent

Böð úr heitum og köldum sjó

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Ef af áformunum verður geta menn kælt sig og yljað sér á víxl í sjónum við Húsavík.
Ef af áformunum verður geta menn kælt sig og yljað sér á víxl í sjónum við Húsavík.
Fyrirtækið Sjóböð hefur óskað eftir tæplega þúsund fermetra lóð á höfða sem er á milli íbúabyggðar og iðnaðarhverfis á Húsavík og áformar að koma þar upp sjóböðum og svo að reisa þar heilsuhótel.

Pétur J. Eiríksson
Að sögn Péturs J. Eiríkssonar, stjórnarformanns Sjóbaða, eru uppsprettur með heitum sjó á svæðinu og verða þær nýttar til að gera heit sjóböð. Einnig eiga vaskir sjósundmenn að getað synt í Skjálfanda sjálfum og hlýjað sér síðan í heitu saltvatninu þegar þeir eru orðnir skjálfandi kaldir af sjósundinu. Pétur vonast til að starfsemin geti hafist árið 2015.

Hann segir staðsetninguna mjög heppilega. „Þar sem sú skynsamlega ákvörðun var tekin að tengja iðnaðarsvæðið og höfnina með jarðgöngum í gegnum þennan höfða þá verður maður hvorki var við bæinn né iðnaðarhverfið þegar staðið er á honum. Baðgestir geta því vel gleymt því að þeir séu svo nærri siðmenningunni meðan þeir baða sig í Skjálfanda og njóta náttúrunnar hvert sem litið er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×