Innlent

Vilja setja upp hafnfirskt skilti í Vogunum

Valur Grettisson skrifar
Skiltið myndi verða sunnan við álverið í Straumsvík.
Skiltið myndi verða sunnan við álverið í Straumsvík.
„Þetta er undarlegt útspil,“ segir Marín Hrafnsdóttir, menningar- og ferðamálafulltrúi Hafnarfjarðar, en Vegagerðin hefur meinað bæjaryfirvöldum að koma sér upp skilti fyrir ferðamenn nærri Straumi. Þess í stað hefur Vegagerðin boðið Hafnarfjarðarbæ að setja skiltið upp í Vogalandi.

Málið var tekið fyrir á fundi menningar- og ferðamálanefndar Hafnarfjarðar fyrir helgi og þar lýsti nefndin yfir vonbrigðum með ákvörðun Vegagerðarinnar.

„Hafnarfjörður er illa merktur og við vildum bæta úr því,“ útskýrir Marín og bætir við að skilti nærri Vogunum sé of langt frá bænum.

Óskað var eftir því að skiltið yrði við gömlu vigtunarstöðina skammt frá Straumi. Vegagerðin hafnaði viðleitni bæjarins í ljósi þess að aðrein sem skiltið átti að standa við reyndist of stutt. Því væri staðsetningin hættuleg.

„Við munum því líklega setja upp stærra skilti sem ferðamenn geta lesið á í umferðinni,“ segir Marín. Til stendur að kostnaðaráætlun og hönnun skiltisins liggi fyrir í lok mánaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×