Innlent

Varð ástfangin af glímunni

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Það eru allir að hvetja mig til að taka eitt ár í viðbót í glímu og sjá hvað gerist, halda áfram að fylgja flæðinu og sjá hvert það ber mig,“ segir Sunna. 
Fréttablaðið/Pjetur
"Það eru allir að hvetja mig til að taka eitt ár í viðbót í glímu og sjá hvað gerist, halda áfram að fylgja flæðinu og sjá hvert það ber mig,“ segir Sunna. Fréttablaðið/Pjetur Fréttablaðið/Pjetur
„Það bara kviknaði hjá mér áhugi fyrir glímu. Þetta er eins og að verða ástfangin,“ segir Sunna Rannveig Davíðsdóttir og brosir breitt, þegar hún er spurð um ástríðu sína fyrir að berjast við annað fólk. Hún er bara 1 og 60 m á hæð en er fremst íslenskra kvenna í bardagalist og ein af fimm víkingum úr keppnisliði Mjölnis sem ætlar til Írlands eftir hálfan mánuð að takast á við erlent áhugafólk í sama sporti. Hinir eru karlmenn.

Langaði að kafa dýpra

Sunna kveðst hafa byrjað í muay thai, það er tælenskt kickbox. „Svo langaði mig að læra meira, kafa dýpra,“ segir hún. „Ég var úti að hlaupa í Vesturbæ Reykjavíkur þegar mér datt í hug að stökka inn í Mjölni og kanna hvað væri í boði og þegar ég labbaði út aftur var ég búin að skrá mig á byrjendanámskeið. Vissi ekkert út í hvað ég var að fara en fann að ég var að taka rétta ákvörðun. Tíu dögum seinna byrjaði námskeiðið og eftir þar varð ekki aftur snúið. Bæði iðkendur og starfsfólk var þannig að ég sogaðist inn í þetta umhverfi, samstaðan var svo góð - og er enn þó hópurinn hafi stækkað.

Hún kveðst hafa byrjað að æfa brasilískt jiu-jitsu, kikk box, box og víkingaþrek. Nú leggur hún áherslu á MMA sem er blönduð bardagalist og í því ætlar hún að keppa í Írlandi. „Það opnar nýja vídd að læra glímu,“ segir hún sannfærandi. „Maður á kannski erfiðan dag en fer inn að glíma og skilur allt eftir sem búið er að ganga á, hugsar bara um hvað maður er að gera nákvæmlega á því augnabliki. Glíma er ekki bara líkamleg áreynsla heldur hefur hún áhrif á hugarfarið líka.“

Viðtalið fer fram í bardagahúsi Mjölnis, gamla Héðinshúsinu á Seljavegi sem um tíma hét Loftkastalinn. Þar æfir Sunna og þar starfar hún líka, bæði í afgreiðslunni og við þjálfun á svokölluðu víkingaþreki. Þannig sameinar hún vinnu og áhugamál. Hún sýnir mér salina.

„Í víkingaþrekinu blöndum við öllu saman, ketilbjöllum, líkamsþyngdaræfingum, spörkum og boxi í púða. Þar mætir alltaf stór hópur, meðaltalið er 40 en hefur farið upp í 70-80. Þegar ég er að þjálfa set ég saman æfinguna og hjálpa fólki að komast í gegnum hana. Þá get ég stundum verið með læti en þó mest uppbyggjandi hávaða,“ segir hún brosandi. „Svo þegar ég er á æfingu þá eru aðrir að leiðbeina með viðeigandi hrópum.“

Systirin lét lífið

Sunna átti heima í Smálöndunum í Svíþjóð til fimm ára aldurs, með foreldrum sínum og tveimur systrum, Rakel Báru og Söndru sem voru 10 og 12 árum eldri en hún. „Það var mikill vinskapur milli systra minna en ég var svona litla stelpan sem alltaf var hægt að atast í,“ segir hún. Frá Svíþjóð flutti fjölskyldan á Stokkseyri en fljótlega á eftir dró ský fyrir sólu.

„Rakel Bára systir mín lést af slysförum,“ segir Sunna alvarleg. „Það gerði flóð á Stokkseyri því varnargarður gaf sig og vegurinn eyðilagðist. Systir mín var að koma heim um hádegisbil í bíl með stelpu frá Selfossi og þær uggðu ekki að sér. Bíllinn fór á flug og systir mín lét lífið. Í kjölfar slyssins flutti Sandra systir mín að heiman og fór að búa og allt var breytt. Við mamma og pabbi fluttum til Þorlákshafnar og þaðan á sveitabæ í Flóanum en þegar ég var átta ára fluttum við í Kópavoginn.“

Hún kveðst muna vel eftir Rakel Báru systur sinni. „Ég vil meina að hún eigi sinn þátt í því að gera mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Hún fór nefnilega snemma að reyna á þrekið mitt með því að tuskast við mig, kefla mig, binda mig saman og fíflast í mér. Ég er sterkari fyrir vikið og tel að þessir leikir hafi mótað mig.“

Pabbi í hjartastopp

Systurmissirinn er ekki eina áfall Sunnu í lífinu því faðir hennar lést í byrjun síðasta árs. „Pabbi fór í hjartastopp,“ segir hún döpur. „Hann var ótrúlega góður maður. Var á 62 aldursári þegar hann lést. Hann var leigubílstjóri, hafði verið í löggunni áður og sjómaður í gamla daga.“

Hún segir það huggun harmi gegn að fjölskyldan hafi verið nýbúin að eiga mjög góðar stundir saman. „Þetta gerðist rétt eftir nýárið og hann var búinn að verja hátíðunum með fjölskyldunni á einstakan hátt, það er eins og hann hafi grunað hvað í vændum væri. Hann þurfti svo mikla nærveru. Það var eins og hann væri að njóta þess í botn að vera með fólkinu sínu og hann lét mikla ást og mikið þakklæti í ljós. Svo var hann með vídeóvél í hendinni eiginlega öll jólin, reyndar sjálfur vitlausu megin því við hefðum viljað eiga myndir af honum.“

Hún segir fráfall föður síns hafa verið eins og dúndrandi högg í andlitið. „Þetta var hræðilegur skellur sem reyndi mikið á. Ég á litla stelpu sem var alger afastelpa og mamma og pabbi voru auðvitað náin. Þetta hafði líka svakaleg áhrif á mig en einhvernveginn druslaðist ég gegnum dagana. Ég var að byrja í háskólanum á þessum tíma og eitt sinn var ég þar í aukatíma. Það var föstudagur, búin að vera strembin skólavika og jarðarför pabba á miðvikudeginum.

Ég leit á klukkuna og hugsaði með mér. Það er glíma eftir hálftíma. Kennslustundin var ekki búin en ég ákvað að taka dótið mitt, hlaupa út í bíl og keyra út í Mjölni. Fann að ég þurfti á því að halda. Þá beið mín þar járnun. Það er athöfn þar sem þjálfarar meta þá sem eru að glíma, bæði ferilinn og frammistöðu þeirra þann daginn og iðkendurnir fá annað hvort belti eða strípur í beltið sitt ef þeir hafa unnið til þess. Mér var hent út á gólfið því þjálfararnir töldu að ég þyrfti smá líkamlega þolraun. Það var rétt mat.

Þegar ég var búin að að veltast í gólfinu í góðan klukkutíma og taka á hjálpaði það mér að opna á sársaukann. Félagarnir studdu mig og hvöttu og lá við að þeir grétu með mér. Þeir eru eins og önnur fjölskylda mín og það hjálpaði mér mikið í kjölfar þessara hremminga að koma hingað á æfingar.“

Fyrsti kossinn í boxhringnum

Í byrjun þessa árs, þegar Sunna var búin að æfa allt sem í boði var í Mjölni í tvö ár og kenna líka víkingaþrekið á köflum ákvað hún að láta gamlan draum rætast og fara til Tælands að æfa muay thai, fyrstu glímuna sem hún hóf að iðka en hafði ekkert stundað meðan hún var í Mjölni. „Ég planaði ekki mikið áður en ég fór út annað en að einbeita mér að æfingum, rækta sjálfa mig og komast í annað umhverfi. Ég bjó í Tyger Gym bardagahúsinu á Pukheteyju, í miðri hringiðunni. Þar voru boxpúðar sitt hvoru megin við herbergið mitt og ég vaknaði við fólk að kíla í þá.“

Í Tælandi lenti Sunna í hörku bardagakeppni en fram að því hafði hún einungis æft. „Ég fór í einn áhugamanna muay thai-bardaga, fjóra atvinnumanna muay thai-bardaga og einn MMA áhugamannabardaga. Hvernig gekk?

Þetta endaði með sigri á öllum vígvöllum.“ Þarna var fyrsta atvinnumanna viðureign Sunnu í MMA (blönduðum bardagalistum og sjálfsvörn) orðin að veruleika. Hún er eina íslenska stúlkan sem hefur háð slíkan bardaga. „Ég fattaði það ekki fyrr en eftir á hvað ég væri búin að skrifa í sögubækurnar,“ segir hún og brosir breitt. 

Hún hefur ríka ástæðu til að brosa yfir fleiru sem gerðist í Tælandi því þar kynntist hún kærastanum sínum. Hann er Ástrali og heitir Gokhan. Skyldu þau hafa mæst í hringnum?

„Við hittumst bara í bardagahúsinu. Komum þangað sama dag en sáumst ekki þá. Seinna fórum við að spjalla og fórum á kaffihús og komumst að því að við ættum sama áhugamál sem er auðvitað bara slagsmál. Við vorum svolítið farin að kynnast og hanga saman þegar við ákváðum að horfa á sólarupprás hjá Big Búdda sem er búddaklaustur uppi í fjalli. Við gengum að því upp fjögurra kílómetra langa brekku. Þar áttum við rómantískan sunnudagsmorgun. Í kjölfarið gerðist eitthvað, við höfðum enga stjórn á því og það endaði með því að fyrsti kossinn okkar varð í byrjendahringnum í boxi. Ég veit að þetta hljómar mjög væmið!“

Komstu með hann með þér heim? „Hann elti mig. Var kominn hingað tveimur vikum eftir að ég kom heim í maí og var hér í sex vikur. En hann er mikið að flækjast um heiminn því hann er alþjóðlegur bardagamaður sem gerir ekkert annað en æfa, sofa og borða og svo keppa þess á milli. Hann er bara sóttur þangað sem hann er og skilað til baka. Núna er hann í Ástralíu og keppir annan laugardag. Svo keppir hann í Bangkok fjórum vikum síðar.“

Býstu við að hann komi til með að búa hér? „Við sjáum bara til hvað verður úr þessu. Það er svolítið erfitt að segja til um það,“ segir hún og minnir á að það sé líka bardagi framundan hjá henni úti í Írlandi.

Í víkingaþreki slösuð

Spurð hvort sigrar hennar í Tælandi hafi ekki verið góðir fyrir egóið svarar Sunna. „Egóið eflist frá fyrsta degi. Ég finn það líka hjá dóttur minni. Hún er átta ára og búin að æfa í tvö ár. Með hverju skrefi fram á við eykst sjálfsöryggið. Maður kemur heim til sín og hugsar: Ég lærði þetta í dag og nú ætla ég að vinna aðeins í því. Svo festist sú kunnátta í undirmeðvitundinni og hreyfingin verður náttúruleg en alltaf koma ný atriði að vinna með.

Svona smá byggist ofan á grunninn og alltaf er maður að bæta við sig. Þetta er eins og að synda í óendanlegu hafi en verða aldrei leiður því alltaf er eitthvað sem togar mann áfram í leit að fullkomnun. Það er það sem er heillandi.“



SunnaAnna Rakel er hluti af öllu ferlinu hjá mér og á sinn hlut í þeim árangri sem ég hef náð,“ segir hún um dóttur sína. Fréttablaðið/Stefán
En skyldi Sunna aldrei hafa meitt sig í átökum og æfingum?

„Ekki alvarlega. Ég reyni að þekkja mín takmörk og lesa í andstæðinginn. Þjálfararnir halda uppi aga og iðkendur temja sér aga sjálfir. En ég fékk reyndar þreytubrot í vinstri handlegginn síðasta sumar og var með rosa verki í nokkrar vikur, hélt samt áfram að æfa og var líka í vegavinnu svo ég var í miklum átökum. Það endaði með að beinið sprakk frá únlið upp að olnboga á einni æfingunni. Ég fór í gifs en var samt alltaf í víkingaþrekinu.“

Stökk á eftir þjófi

Það var ekki einungis af aðdáun á bardagalist sem upphaflega kom Sunnu af stað. „Ég var að vinna á skemmtistöðum og var leigubílstjóri á tímabili og fannst ég þurfa að kunna að verja mig, ef á mig væri ráðist. Í leigubílaakstrinum lenti ég í allskonar veseni,“ segir hún og rifjar upp sögu af strák sem stökk út úr bílnum án þess að borga. „Ég var búin að vera að keyra alla nóttina og var með hljóðbók í eyrunum, að hlusta á Njálu. Þegar þessi drengur var að borga rétti hann mér námsmannakort. Ég sagði: „Heyrðu vinur,“ sneri mér við en þá var hann horfinn. Ég hentist út á eftir honum, náði ekki að slökkva á bílnum og hljóðbókin flæktist og datt í jörðina. Ég hljóp eins hratt og ég gat en það var smá vegalengd á milli okkar frá upphafi. Svo stoppaði hann og ég líka.

Ég vissi að bíllinn var í gangi og staðan var þannig að strákurinn hefði í rauninni getað hlaupið í hann, brunað burtu og gefið mér puttann svo ég sagði bara við hann: „Hvað heldurðu að hún mamma þín segði ef hún vissi að þú hefur ekki merkilegri mann að geyma en þetta?“ og labbaði aftur upp í bíl. Ég varð oft að vega og meta aðstæðurnar og stundum var betra að halda áfram að vinna en standa í stappi.“ 

Sunna kveðst glíma meira við stráka en stelpur en segir þó mjög gott að glíma við stelpurnar. „Það er ótrúlegt að sjá hvað margar stelpur eru orðnar góðar og öflugar. Það er svolítið öðruvísi að glíma við þær en stráka en ég er ekki að segja að annað hvort sé betra.“ Hún segir stelpum líka alltaf að fjölga í Mjölni.

„Það eru margar að koma nýjar inn, leita mig uppi að biðja um leiðbeiningar þannig að það er aukin eftirspurn, áhugi og metnaður enda er bætt við stelpnatímum á nýju stundaskránni. Margar eru bara að æfa en mér finnst þær hafa líka aukinn áhuga á keppni,“ segir hún og kveðst vona að hún eigi einhvern þátt í þessari þróun. „Það er náttúrlega bara draumur að vera góð fyrirmynd.“ 

Fylgir flæðinu

Dóttir Sunnu, Anna Rakel, á góða fyrirmynd í mömmu sinni. Hún er búin að keppa einu sinni í glímu og gekk bara vel, að sögn móðurinnar. „Stelpan mín heitir Anna Rakel í höfuðið á ömmu sinni og systur minni. Ég trúi því að systir mín sé öflugur stuðningsaðili okkar mæðgna.“

Anna Rakel er hjá pabba sínum á Blönduósi og hans konu, prófaði það í fyrravetur þegar Sunna fór til Tælands. „Anna Rakel er samt hluti af öllu ferlinu hjá mér og á sinn hlut í þeim árangri sem ég hef náð. Hún er það sem ég hugsa um áður en ég stíg inn í hringinn og það fyrsta sem ég hugsa um þegar ég kem út úr hringnum. Hún er númer eitt, tvö og þrjú.

Ég hringi í hana áður en ég byrja að slást og aftur þegar ég er búin, til að segja henni hvað ég gerði. Hún hefur svo góðan skilning á því sem ég er að gera og tekur þátt í því af lífi og sál. Það gefur mér mikið og þetta er hennar áhugamál líka. Henni líður vel hjá pabba sínum og hans fólki. Það eru allir að hvetja mig til að taka eitt ár í viðbót í glímu og sjá hvað gerist, halda áfram að fylgja flæðinu og sjá hvert það ber mig. Meðan dóttir mín er sátt og allir í kring um mig ætla ég að njóta þess en það er ekki fyrr en bókin er fullskrifuð sem sést hvernig þetta endar.“






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×