Innlent

Lofa stærra Barnahúsi

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðisráðherra, voru viðstödd fundinn í dag. Þau segja samstöðu ríkja innan ríkisstjórnarinnar um stækkun á húsnæði Barnahúss.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðisráðherra, voru viðstödd fundinn í dag. Þau segja samstöðu ríkja innan ríkisstjórnarinnar um stækkun á húsnæði Barnahúss. Fréttablaðið/arnþór
„Við teljum rétt að bregðast strax við því sem fram kemur í þessari skýrslu,“ sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðisráðherra, á fundi sem fram fór í húsakynnum UNICEF í dag en þar funduðu fjórir ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar með sérfræðihópi barna hjá UNICEF.

Sérfræðihópurinn er skipaður ungmennum sem beitt hafa verið kynferðislegu ofbeldi og fékk hópurinn það verkefni að búa til skýrslu þar sem lagðar voru fram skýrar tillögur til úrbóta í málefnum sem tengjast kynferðisbrotum gegn börnum.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í dag eru biðlistar í Barnahúsi lengri en nokkru sinni fyrr. Eygló sagði á fundinum að samstaða ríkti innan ríkistjórnarinnar um að auglýsa eftir stærra húsnæði fyrir Barnahús og að verið sé að leggja lokahönd á auglýsingu þess efnis. Hún sagði jafnframt að með stækkun húsnæðisins yrði auðveldara að taka á þeim biðlistum sem þegar eru til staðar.

Eygló segir það mikilvægt að þessi málefni fái góðan framgang í kerfinu. Hún segir að sérfræðihópurinn hafi bent á að margt mætti betur fara við meðhöndlun mála sem þessara.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, tók það fram á fundinum að sérfræðihópurinn hefði bent á að fræðslan í skólakerfinu þyrfti að vera meiri og öflugri.

Allir ráðherrarnir sammæltust um það að fundurinn í dag hefði verið einn sá átakanlegasti sem þau hefðu setið. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagðist fagna því að brotaþolar stígi æ oftar fram til að tala um reynslu sína og benti á að á síðustu árum hefði margt breyst til hins betra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×