Innlent

Ekki megi rugga bát embættismanna

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Elías Ólafsson og starfsmenn Gámaþjónustunnar sem sóttu lífrænan úrgang við Hagkaup í Garðabæ í gær.
Elías Ólafsson og starfsmenn Gámaþjónustunnar sem sóttu lífrænan úrgang við Hagkaup í Garðabæ í gær. Fréttablaðið/GVA
„Það er einhver hræðsla innan kerfisins hjá aðilum sem telja að við séum að taka frá þeim verkefni,“ segir Elías Ólafsson, stjórnarmaður í Gámaþjónustunni sem ekki fær að safna lífrænum úrgangi frá heimilum í Reykjavík.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær synjaði umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur Gámaþjónustunni um undanþágu til að safna lífrænum úrgangi frá heimilum.

Í umsögn ráðsins segir að lífrænn úrangur geti valdið lyktarmengun, að skordýr og meindýr sæki í hann og að úrgangurinn geti borið með sér sóttkveikjur.

„Því er mjög mikilvægt að regluleg hirða sé tryggð og rétt staðið að söfnun úrgangsins,“ segir ráðið og bendir umferð um íbúagötur muni aukast verulega eftir því sem oftar verði hirt og fleiri úrangsflokkum safnað.





Elías og lífræni úrgangurinn.Fréttablaðið/GVA
Elías bendir á að Gámaþjónustan hafi nú í tvö ár safnað lífrænum úrgangi frá heimilum á Akureyri og Dalvík með góðum árangri. Ef rétt sé að farið þurfi umferð ekki að aukast.

„Sveitarfélögin nyrðra virðast ekki eins hrædd við okkur og sveitarfélögin fyrir sunnan. Við tökum lífræna úrganginn í sömu ferð og við náum í annan úrgang. Rökin eru eiginlega alltof þau að við séum að taka einhver verkefni frá sveitarfélögunum og að það geti engin gert þetta almennilega nema þau,“ segir Elías.





Þessu grænmeti og ávöxtum verður breytt í gróðurmold.Fréttablaðið/GVA
Þá nefnir Elías að á höfuðborgarsvæðinu safni Gámaþjónustan nú þegar snurðulaust lífrænum úrgangi frá fyrirtækjum. „Manni finnst skrítið að einmitt þau yfirvöld sem hafi það markmið að minnka urðun skuli setja stöðugt fótinn fyrir mann,“ segir hann.

Að sögn Elíasar er umdeilanlegt hvort borginni komi það yfirhöfuð við að íbúar semji við fyrirtækið um sorphirðu. Gámaþjónustan hafi þó viljað vinna málið í bróðerni og fá leyfi borgarinnar. „En embættismönnum borgarinnar finnst að það sé verið að rugga bátnum þeirra,“ segir hann.

Gámaþjónustan er ásamt Sorpu og Íslenska gámafélaginu ráðandi á markaði hérlendis. Aðspurður segir Elías að þessi fyrirtæki velti samtals fimm til sex milljörðum króna. Það eru því miklir viðskiptahagsmunir í húfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×