Innlent

Hafnarstjórn vill endurheimta svæði

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Sagt er vera lífsspursmál fyrir Hafnarfjarðarhöfn að fá svæði sem skilgreint er sem íbúða- og verslunabyggð.
Sagt er vera lífsspursmál fyrir Hafnarfjarðarhöfn að fá svæði sem skilgreint er sem íbúða- og verslunabyggð.
Hafnarstjórn Hafnarfjarðar segir að mistök hafi verið gerð í aðalskipulagi bæjarins þegar upplandi hafnarinnar hafi verið breytt í svæði til íbúðabyggðar og verslunar og þjónustu.

Að sögn hafnarstjórnarinnar er svæðið skilgreint sem hafnarsvæði í reglugerð. Engin ákvörðun um að breyta notkun þess hafi verið bókuð í skipulags- og byggingaráði, bæjarráði eða bæjarstjórn.

„Það er skoðun hafnarstjórnar að lífsspursmál sé fyrir Hafnarfjarðarhöfn að hafa þetta þróunarsvæði í stað þess að loka höfnina af með íbúðabyggð, sem girða mun fyrir nýtingu Flensborgarhafnar til lengri tíma litið,“ segir hafnarstjórnin í rökum sínum.

„Svæðið mætti þróa til hafnsækinnar ferðaþjónustu, svo sem með byggingu gistirýmis, veitingareksturs, verslunar með vörur tengdar bátum og veiðum. Einnig mætti hugsa sér aðstöðu til móttöku farþega skemmtiferðaskipa sem og annarra gesta, sérstaklega tengt hafnsækinni ferðaþjónustu, hvalaskoðun, sjóstangaveiði, fuglaskoðun og fleira,“ segir hafnarstjórnin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×