Innlent

Svangir fangar fá ekki vinnu

Valur Grettisson skrifar
Aðstandandi segir framfærslufé ekki duga fyrir mat út vikuna.
Aðstandandi segir framfærslufé ekki duga fyrir mat út vikuna.
„Þetta dugir ekkert út vikuna, þeir borða brauð og afganga síðustu dagana,“ segir Gunnar Davíðsson en fóstursonur hans er í Kvennafangelsinu í Kópavogi.

Fangar þar fá 1.300 krónur á dag til þess að standa straum af matarkostnaði. Það gera rúmlega níu þúsund krónur á viku eða um fjörutíu þúsund krónur á mánuði. Tólf fangar eru í fangelsinu en af þeim er aðeins ein kona. Lítil sem engin vinna er í boði fyrir fanga í kvennafangelsinu.

Fangarnir þurfa að elda matinn sinn sjálfir. „Það er einn fangi þarna sem er nokkuð góður í að elda og hann matreiðir ofan í þá,“ segir Gunnar, sem svíður að sjá fósturson sinn bæði iðjulausan og svangan í fangelsinu.

Gunnar bætir við að einhverjum aðstandanda fanganna hafi blöskrað matarleysið og hann komið til þeirra frosnum fiski sem hafi komið að góðum notum.

Samkvæmt heimasíðu Fangelsismálastofnunar eru rólegir fangar valdir til þess að afplána í Kvennafangelsinu, þeir eru með styttri dóma að jafnaði. Það eru menn sem geta unnið og hafa ekki brotið af sér með ofbeldi gagnvart konum eða börnum.

Enga vinnu er að fá í fangelsinu þannig að vistmenn geta ekki drýgt tekjur sínar með þeim hætti.

Páll Winkel.
„Framboð á vinnu hefur minnkað verulega frá kreppu,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri spurður út í aðstæður fanga í Kvennafangelsinu.

Um féð sem fangar fá til þess að kaupa sér mat segir Páll að sú upphæð hafi hækkað eftir kreppu og er viðmiðið lágmarksframfærslukostnaður sem reikna má út á vef velferðarráðuneytisins. Þar má sjá að neysluviðmið einstæðra karlmanna í öðru þéttbýli er 42.300 krónur. Þar er átt við mat en inn í það reiknast hreingerningarvörur og hreingerningaáhöld, auk hreinlætis- og snyrtivara.

Páll bendir á að Fangelsismálastofnun, eins og aðrar stofnanir ríkisins, hafi þurft að taka á sig verulegan niðurskurð, en þar hefur verið skorið niður um 24% frá hruni.

„En þetta er viðvarandi vandamál með vinnuna. Forstöðumenn hafa gert sitt besta til þess að útvega vinnu. Það er nóg af vinnu á Litla-Hrauni en minna á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Páll.

Aðspurður segir hann stofnunina hafa fengið kvartanir vegna lágs framfærslufjárs en bætir við að stofnunin reyni sitt besta í þessum efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×