Skoðun

RÚV: Höldum okkur við prinsippin!

Guðmundur Edgarsson skrifar
Fróðlegt hefur verið að fylgjast með skeleggri framgöngu Brynjars Níelssonar alþingismanns varðandi tilgang RÚV í nútímasamfélagi. Brynjar tekur stöðu með skattborgurum þessa lands og spyr hverju það sæti að enn sé verið að reka fjölmiðil á vegum ríkisins þegar tækniframfarir undanfarna áratugi hafa gert það að verkum að einkareknir fjölmiðlar og netið geta auðveldlega sinnt öllum þeim verkefnum sem ríkisútvarpinu einu var á sínum tíma ætlað að sinna.

Karpað um aukatriði

Þrátt fyrir viðleitni Brynjars til að halda mönnum við efnið hefur sú umræða sem átt hefur sér stað í fjölmiðlum að undanförnu um málefni RÚV því miður einkennst af aukaatriðum á borð við hvað nefskatturinn kostar nákvæmlega hverja meðalfjölskyldu og hvort RÚV eigi að sinna íþróttaumfjöllun eða ekki. Slíkar vangaveltur varða ekki kjarna málsins sem er einfaldlega sú spurning hvort það samræmist grundvallarmannréttindum að skylda fólk til áskriftar að einum tilteknum fjölmiðli án tillits til þess hvort fólk hafi áhuga eða ekki.

Rök Ögmundar Jónassonar

Sem dæmi um hve einkennileg þessi umræða getur orðið vil ég nefna þau rök sem Ögmundur Jónasson alþingismaður tefldi fram fyrir tilvist RÚV gegn Brynjari í þættinum Bítið á Bylgjunni fyrir skömmu. Ögmundur taldi að nauðsynlegt væri að ríkið ræki sjónvarpsstöð sem væri með aðrar áherslur en aðrar sjónvarpsstöðvar.

Þessi rök ganga ekki upp því vitaskuld er hver útvarps- og sjónvarpsstöð með sjálfstæða dagskrá og eigin efnistök; ÍNN er með talsvert aðrar áherslur en hinar einkareknu sjónvarpsstöðvarnar, svo dæmi sé tekið. Dugar það til að setja ÍNN á spenann hjá ríkinu?

Önnur rök sem Ögmundur notaði voru þau að þegar hann opnaði gufuna yfir páskana, þá sýndi gamla gufan hvað í henni býr, því þá sækir hún nefnilega efni frá gamalli tíð! Sem sagt, ef ég stofna fjölmiðil sem leggur áherslu á gamalt efni, á ég þá heimtingu á stuðningi frá ríkinu?

Ummæli útvarpsstjóra

Annað dæmi um vanhugsaða röksemd fyrir tilvist RÚV eru ummæli Páls Magnússonar útvarpsstjóra þess efnis að ef ekki væri fyrir RÚV, myndu Davíð Oddsson og Jón Ásgeir Jóhannesson skipta á milli sín fjölmiðlamarkaðinum – og slíkt myndi fólki ekki hugnast að mati Páls.

Þetta er ekki röksemd heldur spá um eina af óteljandi sviðsmyndum sem hægt er að draga upp af fjölmiðlamarkaðnum ef RÚV nyti ekki við. Þá felst í orðum Páls þversögn því hverjir ráða því hvaða fjölmiðlar leiða fjölmiðlaflóruna hverju sinni? Svarið er einfalt: Neytendur. Hvorki Davíð né Jón Ásgeir geta aukið markaðshlutdeild sinna fjölmiðla að ráði án þess að hafa ánægða viðskiptavini með sér, a.m.k. ekki til lengra tíma litið. Varla getur það verið fólki þvert um geð sem það sjálft sem neytendur velur á frjálsum og síbreytilegum markaði eða hvað?

Þarf að neyða fólk til viðskipta?

Umræðan á fyrst og fremst að snúast um þá grundvallarspurningu hvort eðlilegt sé að fólk sé þvingað til viðskipta við einn fjölmiðil frekar en annan.

Ef svarið er já, verður að krefja alla þá þingmenn, sem það telja, að styðja sín sjónarmið með skýrum, hnitmiðuðum og rökheldum hætti. Ef svarið er nei, þá ber að undirbúa sölu RÚV sem fyrst, helst á fyrri hluta þessa kjörtímabils. Þá mun raunverulegur vilji fólks, þ.e. neytenda, koma í ljós, t.d. hvort fjölmiðill á borð við RÚV gangi í endurnýjun lífdaga undir merkjum einkarekstrar eða deyja drottni sínum og aðrir fjölmiðlar fylla það skarð sem RÚV skildi eftir sig.

Eitt er þó ljóst, vilji fólks, ekki stjórnmálaskörunga eða embættismanna, mun ráða för, svo meginþorri almennings mun hafa yfir litlu að kvarta í slíku fjölmiðlaumhverfi.






Skoðun

Sjá meira


×