Skoðun

Fastur heimilislæknir – sjálfsögð réttlætiskrafa

Eyjólfur Guðmundsson skrifar
Flestir eru sammála um að heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu en veikburða heilsugæsla leiðir óhjákvæmilega til aukins kostnaðar fyrir samfélagið, svo ekki sé talað um óþarfa áhyggjur og vanlíðan fólks sem þarf að leita dýrari lausna á heilsufarsvandamálum en þörf krefur.

Vel starfandi heilsugæsla er gríðarlega mikilvæg til að skapa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, fötlun eða félagslegri stöðu og er grunnurinn að markvissri lýðheilsustefnu.

Málið snýst um jöfnuð en þrátt fyrir að sjúkratryggingakerfið á Íslandi eigi að tryggja jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu eru þúsundir einstaklinga ekki skráðar hjá föstum heimilislækni. Þetta vita stjórnvöld og hafa gert lengi en ekki beitt sér með skipulegum hætti til að efla heilsugæsluna undanfarin ár.

Heilsugæslustöðvarnar eru mikilvæg þjónustufyrirtæki en hún er ekki öfundsverð staða móttökuritarans sem þarf alltof oft að svara símtölum á þessa leið: „Nei, því miður, við getum ekki skráð fleiri á stöðina og erum ekki með lausan tíma hjá lækni í dag.“

Á Alþingi karpa stjórnmálamenn um hugtök eins og „einkavæðingu“ og „ríkisrekstur“ og hver þeirra mænir bara á aðra leiðina en enginn virðist hafa áhyggjur af ástandinu eða ræða um alvöru lausnir.

Réttur allra þegna

Undanfarin ár hafa hin norrænu ríkin byggt upp grunnþjónustu sem byggir á rétti allra þegna til að skrá sig hjá föstum heimilislækni með því markmiði að tryggja sjúklingum öryggi og samfellu í þjónustu. Skýrt ákvæði er í lögum um skyldu ríkisins, t.d. í Svíþjóð, að skipuleggja grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu þannig að allir hafi möguleika til að velja sér fastan heimilislækni. Markmiðinu er náð með skýrum þjónustusamningum og fjölbreyttum rekstrarformum.

Rekstrarfé snýst um fjölda skráðra skjólstæðinga á heilsugæslustöðina en ekki fjölda koma eða þjónustuviðvika þannig að hér er um afmarkaða upphæð að ræða en ekki opinn krana eða óútfyllta ávísun. Hvatinn í kerfinu byggir á því að viðskiptavinurinn sé ánægður og leiti ekki eftir þjónustu annars staðar.

Markmiðið er að sjálfsögðu einnig að rekstrarfé nýtist betur beint í þjónustu við sjúklinga en minna í yfirbyggingu og stjórnun. Í dæminu um móttökuritarann áðan snýst því dæmið við: „Já, viltu ekki skrá þig á stöðina hjá okkur, við erum með tíma í dag.“ Aðilar með tilskilin réttindi og gæðastaðla geta rekið heilsugæslustöð og er eftirlitið strangt.

Forsenda jöfnuðar

Almenn ánægja ríkir um þetta fyrirkomulag meðal sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks þar sem afköst hafa aukist en útgjöld lækkað. Fjölbreytni í rekstrarformum í heilsugæslu eykur áhuga lækna á heimilislækningum og skapar um leið eðlilegri starfsskilyrði og samkeppnisstöðu gagnvart öðrum þjónustustigum innan heilbrigðiskerfisins.

Gleymum því ekki að mikilvægi heilsugæslu liggur í góðri yfirsýn yfir heilsufar sjúklinga sem auðveldar forvarnir, greiningu og meðferð langvinnra sjúkdóma og lífstílssjúkdóma. Þess misskilnings gætir oft og ekki síst meðal ráðamanna að heilsugæslan sinni minniháttar veikindum hjá annars frísku fólki.

Rannsóknir hafa sýnt að heilsugæsla mönnuð sérfræðingum í heimilislækningum getur leyst úr vanda allt að 90% þeirra sem til hennar leita og er því aðeins í undantekningartilfellum þörf á dýrari þjónustu annarra sérfræðilækna eða sjúkrahúsþjónustu.

Eftir hverju eruð þið að bíða í heilbrigðisráðuneytinu? Gerið öllum þegnum landsins mögulegt að skrá sig hjá föstum heimilislækni en það er forsenda jöfnuðar og grunnur að markvissri lýðheilsustefnu.




Skoðun

Sjá meira


×