Skoðun

Hefur virkilega ekkert breyst?

Ólafur G. Skúlason og Cecilie B. H. Hallgrímsdóttir skrifar
Stórt skref var stigið í vetur þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur viðurkenndi að um ráðuneyta- og kynbundinn launamun væri að ræða hjá starfsmönnum ríkisins. Þáverandi ríkisstjórn af stað jafnlaunaátaki sem ætlað var að brúa þennan launamun. Ákveðið var að byrja á kvennastéttum í heilbrigðiskerfinu. Endurskoðun stofnanasamninga við heilbrigðisstofnanir er nú í fullum gangi en er hvergi nær lokið.

Fyrstu skrefin voru stigin með gerð stofnanasamnings hjúkrunarfræðinga á Landspítala. Það eru þó einungis fyrstu skrefin og ekki þar með sagt að björninn sé unninn, betur má ef duga skal. Kynbundinn launamunur er algerlega ólíðandi í landi sem kennir sig við jafnrétti.

Það var sláandi að hlusta á upplestur Sigrúnar Magnúsdóttur þingmanns á grein Rannveigar Þorsteinsdóttur úr blaðinu 19. júní frá árinu 1955 um jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf.

Hefur virkilega lítið eða ekkert breyst nú tæplega 60 árum síðar? Viljum við að mæður okkar, eiginkonur, dætur, frænkur og vinkonur séu með lægri laun en karlmenn í sambærilegu starfi með sambærilega menntun? Svarið hlýtur að vera nei! Við hljótum að geta brúað þetta bil og við minnum á að nú er árið 2013.

Kjörin jöfnuð 2015

Undanfarnar vikur hefur nýkjörin ríkisstjórn greint frá því að útlitið sé ekki gott hvað varðar rekstur ríkisins. Hún hefur nefnt að ekki séu til peningar til að halda áfram með jafnlaunaátakið sem þegar er hafið.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði á þingi að ekki hefði verið gert ráð fyrir þessum útgjöldum í fjárlögum ársins 2013, en að halda þyrfti áfram og gefast ekki upp. Það var hins vegar ánægjulegt að heyra að ríkisstjórnin styður viðleitni til þess að jafna kjör ríkisstarfsmanna og ætlar að finna leið til þess að halda þessu verkefni áfram.

Hjúkrunarfræðingar eru vel menntuð stétt með mikla þekkingu og færni sem er ómissandi fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að með því að hafa vel menntaða hjúkrunarfræðinga lækkar dánartíðni, legudögum fækkar og það dregur úr fylgikvillum sjúkrahúslegu.

Íslenskir hjúkrunarfræðingar leita í auknum mæli til útlanda til vinnu, sem er verulegt áhyggjuefni. Stórir árgangar hjúkrunarfræðinga eru á leið á lífeyri á næstu þremur árum og því stefnir í verulegan skort ef ekkert verður að gert. Það veldur ekki minni áhyggjum að sífellt fleiri hjúkrunarfræðingar leita í annað nám eða á nýjan starfsvettvang í leit að hærri launum, betri vinnutíma og bættum vinnuaðstæðum.

Til þess að halda hjúkrunarfræðingum í hjúkrun og tryggja framúrskarandi þjónustu til framtíðar þarf að bæta kjör, vinnuálag og stafsumhverfi stéttarinnar.

Við skorum á ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að loka þeirri gjá sem er á milli launasetningar karla og kvenna. Vinnan er þegar hafin og henni verður að halda áfram. Það yrði ríkisstjórninni til sóma að hafa það á ferilskrá sinni að hafa jafnað laun karla og kvenna hjá ríkinu.

Við hvetjum ríkisstjórnina til þess að sýna gott fordæmi. Tilvalið markmið er að kjör karla og kvenna innan ríkisins verði orðin jöfn þann 19. júní 2015, þegar 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×