Skoðun

Tákngervingur spillingar á toppi Úlfarsfells

Hafþór Sævarsson skrifar
Undirritaður er einn þeirra sem kærðu byggingarleyfi fyrir mannvirkjum Vodafone á toppi Úlfarsfells. Þann 10. september sl. felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála byggingarleyfið úr gildi og viðurkenndi lögvarða hagsmuni m.a. undirritaðs.

Ólöglega staðsett mannvirki

Þann 4. maí birtist grein eftir talsmann Vodafone sem segir fyrirtækið tilbúið til að „vinna með öllum sem hagsmuna [eiga] að gæta að viðunandi lausn á málinu“. Í framhaldinu hringdi undirritaður í Hrannar Pétursson, talsmanninn, þar sem fram kom að engin teikn væru á lofti um að flytja umrædd mannvirki óháð því að þau brjóti lögvarða hagsmuni almennra borgara.

Samstarfsvilji Vodafone byggist þannig á því að aðilar vinni saman að hagsmunum Vodafone. „Viðunandi lausn” fyrirtækisins er í því fólgin að mannvirkin standi með góðu eða illu á toppi Úlfarsfells óháð rétti borgaranna; eiginlegur samstarfsvilji Vodafone er orðin tóm.

Á vordögum 2012 báðu íbúar starfsmenn Vodafone vinsamlegast að bíða með framkvæmdir þangað til úrskurður umræddrar kæru byggingarleyfisins lægi fyrir. Kærendur töldu að byggingarleyfi, sem hvorki hafði deiliskipulagningu né meðmæli Skipulagsstofnunar (eins og lög gera ráð fyrir) til grundvallar, yrði fellt úr gildi. Í stað þess að starfsmenn Vodafone sýndu almennum borgurum tillitsemi og iðkuðu sjálfir þau gildi sem fyrirtækið hefur auglýst af miklum dugnaði þ. á m. þolinmæði, virðingu og góð samskipti, þá keyrði Vodafone í boði byggingarfulltrúa Reykjavíkur framkvæmdirnar í gegn í miklum flýti á meðan kæran var til meðferðar.

Stjórnvöld bregðast ekki við

Eftir ógildingu byggingarleyfisins hafa mannvirkin fengið að standa óáreitt í átta mánuði á toppi Úlfarsfells. Byggingarfulltrúi hefur ekki nýtt lagaheimild til að fá mannvirkin fjarlægð þrátt fyrir ítarlega rökstuddar athugasemdir þess efnis að honum beri skylda til þess. Athugasemdunum hefur ekki verið svarað. Mannvirkjastofnun, sem hefur eftirlitshlutverk með byggingarfulltrúa, hefur ekki komist að niðurstöðu þrátt fyrir formlega ábendingu á síðastliðnu ári.

Rannsóknarvinna ekki unnin

Engin sjálfstæð greinargerð hefur verið unnin í þessu máli sem sýnir fram á þörf fyrir umrædd mannvirki eða heppilega staðsetningu fyrir þau.

Þeim sem hagsmuna eiga að gæta vegna nálægðar við fjallið, útivistargildis þess eða á grundvelli náttúruverndar var enginn kostur gefinn til að gera athugasemdir né voru grundvallaratriði málsins rannsökuð. Eftir fund sem undirritaður sat með lögfræðingum borgarinnar og borgarstjóra fyrir um ári sagði lögfræðingur um upplifun embættismanna að þeir hefðu ekki haft hugmynd um hversu vinsælt og ástsælt fellið væri til útivistariðkunar!

Sveitarfélag gegnir þeirri skyldu að vega og meta hagsmuni ólíkra sjónarmiða. Í þessu máli framselur byggingarfulltrúi það ákvörðunarmat sitt og eiginlega rannsóknarskyldu til Vodafone sem meðal annars heldur þeirri grátbroslegu hugmynd fram í „greinargerð“ sinni um málið að toppur Úlfarsfells sé ekki sá staður þar sem besta útsýnið fáist af fjallinu. Nú á það við um Úlfarsfell sem og fjöll almennt að hæsti tindurinn skyggir á útsýni annars staðar á fjallinu en þessi staðreyndarvilla er nýtt sem forsenda í greiningu Vodafone á útivistargildi fellsins.

Tákngervingur spillingar

Kóróna útivistarparadísar borgarbúa hefur verið ólöglega afhent stórfyrirtæki á silfurfati (skv. úrskurði).

Áður en hin ólöglega staðsettu mannvirki verða fjarlægð tróna þau á toppi Úlfarsfells sem tákngervingur samkrulls stórfyrirtækis sem iðkar ekki sín auglýstu gildi og stjórnsýslu sem fylgir ekki lögum og reglum.




Skoðun

Sjá meira


×