Skoðun

Samningur sem ekki má hafna

Emil B. Karlsson skrifar
Nýhafnar fríverslunarviðræður milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna eru áhugaverðar í tengslum við hugsanlega aðild Íslands að ESB. Viðræðurnar snúast um gerð stærsta fríverslunarsamnings sem nokkurn tíma hefur verið gerður og nær til þriðjungs allra viðskipta í heiminum.

Áhrif samningsins gætu orðið gífurleg bæði fyrir öll 28 ríki Evrópusambandsins og Bandaríkin. Í rannsókn sem framkvæmdastjórn ESB lét gera segir að samningurinn gæti leitt til hagvaxtar í ESB-löndunum sem samsvarar því að ráðstöfunarfé hverrar fjölskyldu aukist um u.þ.b. 100 þúsund krónur á ári. Auk þess er gert ráð fyrir 400 þúsund nýjum störfum innan ESB í kjölfar samningsins.

Eins og efnahagsástand Vesturlanda er núna er ljóst að þótt yfirstíga þurfi margar pólitískar, menningarlegar og efnahagslegar hindranir verður lagt mikið kapp á að ná lausn.

Samningsviðræðurnar snúa ekki aðeins að lækkun tolla því þeir eru aðeins að meðaltali um 4%. Heldur er ekki síður rætt um að ryðja úr vegi ýmsum viðskiptahindrunum í formi reglugerða, staðla og leyfisveitinga sem eru mismunandi í álfunum tveimur.

Koma á í veg fyrir að framleiðendur þurfi að framleiða eina vörutegund fyrir Bandaríkjamarkað og aðra fyrir ESB-markað. Markmiðið er þannig bæði að örva atvinnulíf í ríkjunum og auðvelda viðskipti milli samningsaðila.

Stærri markaður fyrir vörur og þjónustu

Eflaust hefði samningurinn jákvæð áhrif á Ísland ef landið væri aðili að ESB. Samningnum er ætlað að stækka markaðssvæði einstakra landa og auðvelda fjárfestum og fyrirtækjum að starfa þvert á landamæri. Þetta er einmitt mikilvæg forsenda þess að fá hingað erlenda fjárfesta eins og er ofarlega á óskalista stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.

Áhrifin fyrir Ísland hafa ekki verið metin, en að mati sænska viðskiptaráðsins er gert ráð fyrir að samningurinn leiði til þess að útflutningur frá Svíþjóð til Bandaríkjanna aukist um 17%. Auk þess að landsframleiðsla í Svíþjóð aukist aukalega um 0,2% á hverju ári í kjölfar samningsins. Sambærileg hagvaxtaraukning á Íslandi hefði umtalsverð áhrif.




Skoðun

Sjá meira


×