Innlent

Hafnar blómum sem hraðahindrun í Kjós

Hér er Hrafnhildur ásamt dætrum sínum, þeim Aþenu Lind og Dögun París Morthens, við Meðalfellsveginn umrædda.
Hér er Hrafnhildur ásamt dætrum sínum, þeim Aþenu Lind og Dögun París Morthens, við Meðalfellsveginn umrædda. Frettablaðið/Daníel
„Þessi vegur er stórhættulegur. Fólk keyrir gríðarlega hratt og áttar sig ekki á því að það er að keyra í gegnum þétta íbúðarbyggð þar sem er mikið af fólki og börnum að leik,“ segir Hrafnhildur Hafsteinsdóttir, íbúi við Meðalfellsveg í Kjós, sem hefur unnið að því síðan árið 2008 að komið verði upp hraðahindrunum við veginn.

Í síðustu viku var ákveðið að koma fyrir blómapottum sitthvoru megin við sumarhúsabyggðina til þess að hægja á umferðinni en hönnunarskrifstofa Vegagerðarinnar samþykkti það ekki þegar til kastanna kom. Var í staðinn ákveðið að setja upp ljósaskilti og viðvörunarlínur.

„Ég fagna því að það sé forvörn í gangi hjá hreppsnefndinni og Vegagerðinni. Það er svo oft sem það þarf að verða slys áður en það er gripið inn í,“ segir Hrafnhildur. Hún segist sjálf hafa verið hrifin af hugmyndinni um að nota blómapotta sem hraðahindrun en treysti Vegagerðinni ef hún telur að aðrar leiðir séu betur til þess fallnar að minnka hraða á svæðinu.

Guðný G. Ívarsdóttir
Guðný Ingadóttir, sveitarstjóri Kjósarhrepps, sem hefur barist fyrir því með sumarhúsaeigendum og íbúum á svæðinu að fá hraðahindranir á veginn, átti hugmyndina að blómapottunum.

„Þegar farið var með málið á hönnunarskrifstofuna hjá Vegagerðinni kom þetta ekki til greina. Þeir reikna með að þetta muni pirra fólk mikið og menn ýti pottunum út af.“

Hámarkshraðinn á veginum er 50 kílómetrar á klukkustund. „Fólk bara virðir það ekki,“ útskýrir hún. Til stóð að koma blómakerunum fyrir í þessari viku. Guðný vonar að ljósaskiltin og viðvörunarlínurnar sem Vegagerðin vill koma fyrir í staðinn verði sem fyrst sett upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×