Íslenski boltinn

Liðið þarf að fara í endurnýjun eftir EM

Stefán Árni Pálsson skrifar
Þorlákur er bjartsýnn fyrir Evrópumótið í knattspyrnu sem hefst á fimmtudaginn. Liðið þarf að fara í endurnýjun eftir mót.
Þorlákur er bjartsýnn fyrir Evrópumótið í knattspyrnu sem hefst á fimmtudaginn. Liðið þarf að fara í endurnýjun eftir mót. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
Þorlákur Árnason, þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar, er nokkuð bjartsýnn fyrir hönd íslenska landsliðsins í knattspyrnu sem hefur leik á Evrópumótinu í Svíþjóð á fimmtudaginn þegar liðið mætir því norska í fyrsta leik riðlakeppninnar.

„Mótið leggst vel í mig. Væntingar eru hóflegar og það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að þá gengur okkur best,“ segir Þorlákur Árnason.

„Okkar möguleikar byggjast mikið á því hvernig fyrsti leikurinn gegn Norðmönnum fer. Ísland er með betri leikmenn en Noregur, það er alveg ljóst.“

Ísland er með Noregi, Hollandi og Þýskalandi í riðli en tvö efstu liðin fara örugg áfram.



„Þá nægir okkur eitt stig gegn Hollendingum til að komast áfram. Þó það vanti einhverja leikmenn í þýska liðið og þær hafi leikmenn sem eru að koma eftir meiðsli þá held ég að við getum ekki gert ráð fyrir stigi eða stigum gegn þeim.“

Baráttan okkar styrkleiki



Þorlákur var beðinn um að meta styrkleika íslenska liðsins.

„Styrkleiki liðsins er hryggur liðsins frá markmanni að fremsta manni. Við eigum frábæra markmenn og svo eru Sif [Atladóttir] og Katrín [Jónsdóttir] mjög gott miðvarðapar, Sara [Björk Gunnarsdóttir] og Margrét Lára [Viðarsdóttir] eru síðan einir af bestu leikmönnum sænsku úrvalsdeildarinnar. Styrkur liðsins í gegnum tíðina hefur verið barátta, uppsett atriði og hraðar sóknir.“

Stutt í endurnýjun

„Sigurður Ragnar [Eyjólfsson, landsliðsþjálfari] er búinn að þjálfa liðið lengi og er frekar íhaldssamur. Menn hafa gagnrýnt það svolítið að breytingar hafa verið litlar undanfarin ár en það hefur gengið vel og þjálfaranum því ekki fundist ástæða fyrir breytingar. Um leið og gengið versnar þá koma sérfræðingarnir fram með lausnir. Ég á ekki von á öðru en að Siggi sjái að það þurfi smá uppstokkun á liðinu eftir EM.

Það hlýtur að hafa verið erfið ákvörðun fyrir Sigga að skilja Eddu [Garðarsdóttir] eftir heima. Endurnýjun á liðinu hefur verið lítil undanfarin ár og þess vegna held ég að þetta hafi komið mörgum í opna skjöldu. Edda er auðvitað tákngervingur liðins, mikill leiðtogi og baráttujaxl sem gerir aðra leikmenn betri í kringum sig. Að mínu mati þá hefði ég undirbúið þessa breytingu fyrr,“ segir Þorlákur.

Þjálfari Stjörnunnar telur að sæti í átta liða úrslitum væri góð niðurstaða.



„Ég held að liðið komist í 8-liða úrslit en stoppi þar. Það yrði flottur árangur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×