Innlent

UNICEF í Jórdaníu fagnar aðstoð frá Íslandi

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Konur og börn frá Sýrlandi í flóttamannabúðum í Írak.
Konur og börn frá Sýrlandi í flóttamannabúðum í Írak. Nordicphotos/AFP
Utanríkisráðuneytið hefur í ár veitt 180 þúsundum Bandaríkjadala til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) í Jórdaníu. Upphæðin nemur ríflega 22 milljónum króna. Í janúar fékk verkefnið 11,6 milljóna framlag og svo 10,6 milljónir til viðbótar í apríl.

Í tilkynningu hjálparsamtakanna ytra kemur fram að nota eigi peningana til að bæta aðbúnað flóttabarna frá Sýrlandi. „UNICEF er ein af fjögurra lykilstofnana í fjölþjóðlegri starfsemi sem Ísland leggur áherslu á að styðja næstu fjögur ár,“ er haft eftir Gunnari Braga Sveinssyni, utanríkisráðherra, í tilkynningu UNICEF í Jórdaníu.

Fram kemur að af um hálfri milljón skráðra og óskráðra sýrlenskra flóttamanna séu 250 þúsund börn í Jórdaníu einni. „Barnavernd er lykilþáttur í aðstoð okkar við flóttafólk frá Sýrlandi og framlag ríkisstjórnar Íslands gerir UNICEF kleyft að halda áfram að bæta hag sýrlenskra barna,“ er haft eftir Dominique Hyde, fulltrúa UNICEF.

Um leið kemur fram að hjálparsamtökin eigi undir högg að sækja þegar kemur að fjármögnun starfseminnar og hafi bara aflað fjár fyrir um 30 prósentum af fyrirséðum útgjöldum ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×