Innlent

Svöðusár á íslenskri tónlistarmenningu

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Arnar Fells er einn þriggja eigenda faktorý
Arnar Fells er einn þriggja eigenda faktorý Fréttablaðið/Anton
„Þetta leit ekki vel út um tíma, það átti að bola okkur út með fantabrögðum og lagaklækjum. Maður var bara í andlegu rusli. Faktorý var byggður upp með blóði, svita og tárum,“ segir Arnar Fells Gunnarsson, einn eiganda tónleika- og skemmtistaðarins Faktorý sem stendur á Hljómalindarreitnum.

„Við áttum um 12 ár eftir af leigusamningnum þegar okkur var sagt upp og gefið að yfirgefa húsið í lok desember, þrátt fyrir skýr ákvæði um þriggja ára uppsagnarfrest í leigusamningnum. Reginn ehf túlkaði samninginn eftir eigin höfði og allt stefndi í dómsmál. Enginn venjulegur maður hefur áhuga á að kljást við ofurefli í dómssal,“ segir Arnar um Fasteignafélagið Reginn ehf, sem sá um sölu eignanna á reitnum fyrir hönd Landsbankans.

„Þegar ég er spurður um samskipti okkar við Reginn hef ég ekkert að segja, því mér var kennt að hafi maður ekkert gott að segja sé best að þegja. Ég skora hinsvegar á fólk að kynna sér uppruna orðsins Reginn, en í Eddu er hann fégráðugur, svikull dvergur sem myrðir föður sinn í gróðaskyni,“ segir Arnar jafnframt en tekur fram að samskipti sín við nýjan eigenda reitsins, Pálmar Haraldsson, hafi verið góð.

„Það var tónlist meðal annars sem kom Íslandi á kortið. Ég hef hitt marga útlendinga í gegnum tíðina sem skilja ekki hvernig við getum átt svona gróskumikið tónlistarlíf. Þess vegna er mikilvægt að hlúa vel að því. Þó Harpa sé fín í eðli sínu þá er hún ekki fyrir þann hluta tónlistarinnar sem skiptir einna mestu máli,“ bætir Arnar við.

„Ég geri mér fulla grein fyrir því að það eru aðrir þættir sem spila inn í þann mikla fjölda ferðamanna sem sækja landið. En tónlist er án efa einn af stærri þáttunum. Túrismi er orðin ein af okkar helstu atvinnugreinum og hvað ætlum við að gera? Loka öllum stöðum þar sem grasrótin þrífst?,“ spyr Arnar.

„Við tókum við sögufrægu húsi í niðurníðslu, gerðum það upp, og svo á að rífa það til að byggja enn eitt hótelið í hjarta miðbæjarins. Ég skil vel að miðbærinn þarfnist uppbyggingar, en ég get ekki séð að við séum á réttri leið. Það að missa Faktorý og Nasa á einu bretti er auðvitað svöðusár á íslenskri tónlistarmenningu, en við sáum vænlegri kost í að semja og ganga nokkuð sáttir frá þessu skemmtilega ævintýri, heldur en að taka blóðuga rimmu,“ segir Arnar að lokum og þakkar sýnda velvild síðastliðin þrjú ár. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.