Lífið

Eiga báðar kærustur sem heita Eva

Tinna Rós Steinsdóttir skrifar
Hljómsveitin Eva. Jóhanna Vala og Sigríður Eir leggja áherslu á að vera einlægar, einfaldar og kósý.
Hljómsveitin Eva. Jóhanna Vala og Sigríður Eir leggja áherslu á að vera einlægar, einfaldar og kósý. Fréttablaðið/Valli

„Við erum búnar að vera þjakaðar af þessari kvenlægu hógværð og hræðslu um að vera ekki fullkomnar alltof lengi. Nú ákváðum við samt að segja bless við það allt saman og leyfa okkur að skína,“ segir tónlistarkonan Jóhanna Vala Höskuldsdóttir, sem ásamt Sigríði Eiri Zophoníasardóttur hefur nú stofnað hljómsveitina Eva.

Jóhanna Vala og Sigríður eru báðar samkynhneigðar og svo skemmtilega vill til að kærustur beggja heita Eva. Hljómsveitin var því nefnd í höfuðið á kærustunum.

„Við semjum rosalega mikið af ástarlögum til þeirra en við leggjum áherslu á að vera einlægar, einfaldar og kósý og semjum alla textana frá hjartanu,“ segir Jóhanna Vala en þær stöllur semja öll sín lög sjálfar.

Eva spilar á sínum fyrstu opnu tónleikum á Café Rosenberg í kvöld og er miðaverðið á tónleikana 1.000 krónur.

„Svo verður líka hægt að borga inn á tónleikana með mat, þá helst mjólkurvörum,“ segir Jóhanna Vala en hún ætlar sér að verja júnímánuði án þess að eyða einni einustu krónu. Hún er þegar búin að greiða fyrir leiguna út mánuðinn og stefnir á að það verði öll hennar útgjöld.

„Ég er af kynslóðinni sem fékk visa-kort í pósti 18 ára og hringir bara í bankann til að fá hærri yfirdrátt. Mig langar að sjá hversu háð neyslunni ég er og hvort ég komist af með minna en ég tel mig þurfa í dag. Ég er skíthrædd við þetta en veit að ég er aldrei að fara að svelta, í versta falli er fullt af fínum mat í gámunum í Reykjavík,“ segir hún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.