Innlent

Verktaki látinn lána Hafnarfjarðarbæ fé

GAR skrifar
Margrét Gauja Magnúsdóttir og Rósa Guðbjartsdóttir. Íbúar við Strandgötu hafa lengi krafist endurbóta sem nú verða að veruleika. Bæjarfulltrúar deila um réttmæti þess að færa hluta kostnaðarins yfir á næsta ár.
Margrét Gauja Magnúsdóttir og Rósa Guðbjartsdóttir. Íbúar við Strandgötu hafa lengi krafist endurbóta sem nú verða að veruleika. Bæjarfulltrúar deila um réttmæti þess að færa hluta kostnaðarins yfir á næsta ár. Fréttablaðið/Valli

„Nú virðist eiga að gera allt sem hægt er til að klára hluti og láta þá líta vel út á komandi kosningavetri,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, um samninga sem fela í sér að verktaki við endurbætur á Strandgötu í sumar fær ekki greitt að fullu fyrr en á næsta ári.

Bærinn ætlar í samstarfi við Vegagerð ríkisins, sem á Strandgötuna, að gera sérstaka húsagötu sem rýmkar til fyrir íbúa syðst á Strandgötu og bætir öryggi gangandi og hjólandi fólks. Í útboði var skilmáli um að verktakinn lánaði helming tilboðsfjárhæðarinnar í fjóra og hálfan mánuð eftir verklok í haust. Lægsta tilboðið var tæpar 70 milljónir króna frá Gröfu og grjóti ehf.

Vegagerðin greiðir helming þess. Að viðbættum hönnunarkostnaði verður hlutur bæjarins 48 milljónir. Af þeim fær verktakinn 29 milljónir en ekki fyrr en á næsta ári. Rósa Guðbjartsdóttir segir þetta mál styðja það sem sjálfstæðismenn hafi sagt en meirihluti Samfylkingar og VG ekki viljað kannast við. „Við höfum kallað þetta afneitun. Að sveitarfélag af þessari stærðargráðu þurfi að fara svona að í ekki viðameiri framkvæmd er dapurlegur vitnisburður um þá fjárhagsstöðu sem búið er að koma bænum í og skýrt dæmi um að menn velti vandanum á undan sér,“ segir Rósa.

Margrét Gauja Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar og formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs, þar sem málið var samþykkt, segir meirihlutann alls ekki í afneitun varðandi stöðu bæjarins. Stakkurinn sé þröngt sniðinn en íbúar við Strandgötu hafi lengi kallað eftir úrbótum sem bæta öryggi. Vegagerðin sé reiðubúin að setja fé í framkvæmdina á þessu ári. Bærinn hafi notað sams konar aðferð áður í bæði íþróttahús í Kaplakrika og við Engidalsskóla. „Þegar við fengum greiðslur frá Vegagerðinni stukkum við til. Það hefur ekkert með væntanlegar kosningar að gera,“ segir Margrét Gauja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×