Innlent

Skotbardagar á götum úti

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Mikið neyðarástand ríkir á Filippseyjum vegna fellibylsins Hayian sem gekk þar yfir síðastliðinn föstudag. Skotbardagar á götum úti hafa í dag komið í veg fyrir að hægt sé að taka fjöldagröf.

Gífurleg eyðilegging er á Filippseyjum vegna fellibylsins en talið er að tæplega 2500 manns hafi látið lífið og ríkir mikil neyð eftir fárviðrið. Áður var óttast að um 10.000 manns hefðu farist en Benigno Aquino, forseti Filippseyja, sagði í viðtali á CNN fréttastöðinni í gærkvöldi að manntjónið hefði verið minna en fyrst var talið.

Það hefur gengið illa að koma neyðarhjálp til margra þurfandi og er mikill skortur á drykkjarvatni, mat og lyfjum. Herinn hefur hert öryggisgæslu eftir að átök brutust út í borginni Tacloban í morgun þegar átti að taka fjöldagröf enda rotnandi lík víða um borgina. Það var ekki hægt þar sem skotið var úr byssum á götum úti, en byssueign er algeng á Filippseyjum og eiga margir almennir borgarar vopn.

Mikill skortur er á líkpokum á svæðinu og óttast sérfræðingar að smitsjúkdómar brjótist út ef ekki verður brugðist við hið fyrsta. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×