Innlent

Sögufélagshús undir tónsmíðar Jónsa

Svavar Hávarðsson skrifar
Jónshús
Jónshús

Jón Þór Birgisson, betur þekktur sem Jónsi í hljómsveitinni Sigur Rós, hefur fest kaup á húsi Sögufélagsins í Fischersundi í Reykjavík.

Hyggst hann gera húsið upp og sinna þar tónsmíðum og annarri menningarframleiðslu, eins og segir í skrifum Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Sögufélagsins. á heimasíðu félagsins. Guðni segir frá því að stjórn Sögufélagsins hugnist vel að Jónsi hafi keypt húsið, enda verði því vel sinnt og þar verði áfram líflegt starf þó félagið hverfi á braut.

Sögufélag flutti aðsetur sitt fyrir rúmu ári, úr húsi félagsins í Skeifuna, þar sem það deilir húsnæði með Hinu íslenska bókmenntafélagi. Ekki hafði tekist að leigja húsið eftir að bókaforlagið Sögur sagði upp leigunni. Guðni segir að með sölu hússins lýkur um tveggja áratuga kafla í sögu félagsins, en um alllangt skeið var húsið orðið Sögufélaginu þungt í skauti. Nú, með sölu hússins, gefst hins vegar færi að laga skuldastöðu félagsins, sem í framhaldinu mun leggja áherslu á útgáfu rita um sögu og sagnfræði, sem er meginhlutverk félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×